30.07.1931
Neðri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

104. mál, notkun bifreiða

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég flyt þetta frv. nú í því formi, sem allshn. skilaði því á síðasta þingi. Þá flutti ég það ásamt hv. 1. þm. N.-M., og tók það nokkrum breyt. í n. Voru þær breyt. aðallega samkv. till. vegamálastjóra og miðuðu að því að gera reglur þær um notkun bifreiða, sem til eru, skýrari og fyllri. Hér er t. d. því ákvæði bætt við, að allir bílstjórar séu tryggðir, en um það er ekkert ákvæði nú, nema fyrir þá, sem vinna hjá öðrum. En nú er það svo víðast hvar úti um land, að vörubílastjórar eiga sjálfir bifreiðarnar, og er óeðlilegt í fyllsta máta, að þeir séu ekki tryggðir eins og þeir, er hjá öðrum vinna. Ennfremur er gert ráð fyrir, að tryggingarupphæðir af stórum bifreiðum aukist að miklum mun, og er það augljóst mál, að slíkt er nauðsynlegt. — Ég geri ekki ráð fyrir því, að málið þurfi að fara til n., þar sem allshn. athugaði það gaumgæfilega á síðasta þingi, en mun hinsvegar ekki setja mig á móti því, ef óskir koma fram þess efnis.