13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

104. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Magnús Torfason):

Þetta mál er gamall kunningi minn. Það var til umr. í Nd. á vetrarþinginu, og var afgr. frá n. í d. og samþ. þar. Nú er það gengið aftur hér, og hefir að mestu verið í Nd. samþ. breytingalaust frá því, sem það var borið fram á vetrarþinginu. N. hér hefir líka litið svo á, að frv. væri fallið til þess að verða að lögum, en þó gert á því örlitlar breyt.

Fyrst við 3. gr. um ökuhraðann. Í frv. eins og það kemur frá Nd. er ákveðið, að ökuhraðahámark skuli vera 50 í stað nú 40 km. N. varð ásátt um að leggja til 45, og er það í samræmi við till. þeirra manna, sem mest hafa látið sig þetta mál skipta, og fremur öðrum eiga að hafa vit á, hvað rétt er í þessu máli. Nú er frá því að segja, að menn greinir mjög á um þetta, og víst er um það, að í flestum stóru löndunum er ökuhraðinn miklu meiri en hér er lagt til, og á vissum svæðum ótakmarkaður. (JónÞ: Víðast ótakmarkaður). Það er nú ekki nema á sumum svæðum. Svo eru önnur lönd, sem hafa tiltekið hámark. En af því er okkur snertir, þá er okkar vegaeftirlit, eins og annað eftirlit hjá okkur, heldur fátæklegt. Við höfum ekki, með því strjálbýli, sem er hjá okkur, ráð á að hafa eins gott eftirlit og aðrar þjóðir. Meiri hluti n. áleit varlegast að taka tillit til kunnáttumanna í þessu efni og ákvað að fara mitt á milli. En að gefnu tilefni þykir mér rétt að taka það fram, að það var einn maður í n., sem hélt því fram um hraðann, að hér mætti hann vera 50, og gerði það til samkomulags við meiri hluta n. að gera ekki sérstakan ágreining um þetta.

Önnur brtt. er falin í því, að trygging fyrir bifreiðar verði nokkru hærri en í frv., sérstaklega þegar farþegum fjölgar. Það er byggt á því, að útgjöldin við hærri tryggingu eru sáralítil. Þau eru 100 krónur fyrir 6 manna bifreið, 110 krónur fyrir 7–10 manna og 120 krónur fyrir bifreið með meira en 10 farþega. Sjá allir, að ef þetta er ekki hækkað, verður tryggingin á stærri bifreiðum minni fyrir hvern mann en fyrir þá menn, sem ferðast í smáu bifreiðunum. Nú, þetta ákvæði er líka gert í samráði við þá menn, sem skyn bera á þessa hluti.

Þriðja breyt., við 8. gr., í 3 liðum, er að mestu leyti orðabreyt. og ákvæðið um reglugerðarákvæðin, sem stjórnin má setja, gert rýrara með okkar ákvæði. Við lítum svo á, að það beri að setja reglurnar fyrir því, hvað megi ákveða með reglugerð, svo víðar, að það geti ekki rekið sig á síðar. Ég skal t. d. taka það dæmi fram að vörubifreið, sem fer ekki nema með 2 menn, og stundum ekki nema 1, er í lægsta flokki. En svo er hún stundum notuð til fólksflutninga, og þá er afar margt fólk í henni. Þetta er ákvæði, sem stj. á að skipa fyrir um með reglugerð. Og þannig er ýmislegt fleira. Bifreiðaakstur er tiltölulega nýr hjá okkur, og í útlöndum er verið að breyta þessu á ýmsa vegu, og eins verður hér. Og þá er þægilegt, að ríkisvaldið geti breytt því með reglugerð, þegar þurfa þykir, án þess það þurfi að koma til kasta Alþingis að gera skipun þar á.