18.08.1931
Efri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

104. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Magnús Torfason):

Úr því hv. flm. þykist ekki þurfa að skýra þessa brtt., sem hann gerði aðvart um við fyrri hl. þessarar umr. og skýrði þá að nokkru, þá verð ég að gegna þeirri skyldu minni að segja álit n. um hana.

Ég gat þess við fyrri hl. þessarar umr., að vegamálastjóri og aðrir kunnáttumenn, sem hefðu fjallað um þessi lög, hefðu ekki minnzt á þetta atriði, og að ég því gengi út frá því, að þeir væru þessu samþykkir. Eftir það spurðist ég nánar fyrir um, hvernig á því stendur, og þá er frá því að segja, að þetta ákvæði er komið inn í lögin samkv. till. vegamálastjóra. Ástæður hans til þess að vilja setja þetta ákvæði inn í lögin eru þær, að úti í heimi er gerð bifreiða alltaf að breytast, og erfitt að fá nýtízkubifreiðar með svo lítilli breidd og ekki nema þær, sem þykja gengnar úr sér, aðallega „Ford“bifreiðar. Ennfremur er litið svo á, eins og kom líka fram hjá hv. flm. brtt., að ástæða sé að hafa flutningabifreiðar breiðari vegna þeirra hlassa, sem á þeim eru. Það er af þessum ástæðum, sem þetta hefir verið flutt.

Ég hefi sömuleiðis talað um þetta mál við eftirlitsmann vega, og er hann á sama máli um þetta. Af þessum ástæðum get ég ekki mælt með því, að brtt. hv. 1. landsk. verði samþ.