18.08.1931
Efri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

104. mál, notkun bifreiða

Jón Þorláksson:

Ég hefi sömuleiðis útvegað mér nákvæmari upplýsingar en ég hafði þegar ég mælti fyrst með till. Ég hefi fengið þær upplýsingar, að núgildandi ákvæðum um breidd bifreiða, sem má ekki vera meiri en 1,75 m., hafi ekki verið framfylgt að öllu leyti, þ. e. a. s., stj. hefir veitt þá undanþágu, að nokkrar bifreiðar mættu vera breiðari, nokkuð margar 1,82 m. og fáeinar 1,86 m.

Ég held, eftir því sem ég hefi komizt næst, að það sé órannsakað mál, hvort sérstakir erfiðleikar muni reynast á því að fá bifreiðar, sem fullnægja breiddarákvæðum núgildandi laga. Þar hefir verið farið eftir óskum innflytjenda, sem hafa beðið um að fá að flytja inn breiðari bifreiðar, þegar þær verksmiðjur, sem þeir eru umboðsmenn fyrir, hafa farið fram á það. Ég hygg, að það séu gildandi ákvæði um breidd bifreiða í fleiri löndum en hér, og ég veit ekki betur en að það sé órannsakað, hvort verksmiðjurnar búa til bifreiðar með þessari breidd handa slíkum löndum.

Ég held, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið um málið, sé rétt að láta núgildandi lagaákvæði um breidd bifreiða halda sér, en að stjórnarráðið veiti þá undanþágu eins og verið hefir hingað til, hvort það er nú samkv. lagaheimild eða ekki, sem ég skal ekkert um segja, þesskonar undanþágu, að leyft sé að flytja inn bifreiðar með þeirri breidd, sem áður hefir leyfð verið, nefnilega 1,86 m. breidd, til notkunar þar, sem mjódd vega verður einna sízt til hindrunar. En ég veit ekki, hvernig það færi, ef svo breiðar bifreiðar væru alstaðar leyfðar til ferða á þeim akfæru hreppa- eða sýsluvegum, sem eru ekki breiðari en svo, að aðeins bifreiðar með löglegri breidd geta komizt hvor framhjá annari, og þó aðeins með því, að önnur nemi staðar, meðan hin fer framhjá.

Ég skal geta þess, sem mér hefir verið bent á, að ef brtt. mín verður samþ., þá sé óviðkunnanlegt orðalag í upphafi næstu gr., sem þá yrði 1. gr. frv. Þar stendur „sömu laga“, nefnilega sömu laga og sú gr., sem nú er 1. gr. frv., á við. En ef sú gr. fellur niður, þá er þetta orðalag óviðkunnanlegt, þar ætti þá að standa „laga“, en ég tel sjálfsagt, að þetta yrði lagfært í prentun, ef brtt. mín um að fella niður 1. gr. verður samþ. Mér þykir því engin ástæða til að koma með skriflega brtt. um það.