18.08.1931
Efri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

104. mál, notkun bifreiða

Jón Baldvinsson:

Ég hefi líka verið að leita mér upplýsinga um þetta atriði, hvort ráðlegt væri að leyfa hér þessar breiðu bifreiðar, sem talað er um í 1. gr. frv. Ég hefi fengið þær upplýsingar, sem ég álít trúlegar, að erfiðleikar verði á því að fá mjórri bifreiðar, vegna þess að ávallt sé verið að gera meiri og meiri kröfur til þeirra. Það er áreiðanlegt, að þeir smíða ekki bifreiðar með tilliti til okkar mjóu vega, heldur smíða þeir þau „model“, sem mest seljast í stóru löndunum, sem hafa fullkomna vegi. Nú fást ekki hér þær bílagerðir, sem hér voru fyrir nokkrum árum; það er búið að leggja þær allar niður. Þeir, sem ennþá eiga gömlu bifreiðarnar, eru í vandræðum með viðgerð á þeim, því að nú er hætt að búa til þá varahluti, sem í þær þarf og mest slitna. Framfarirnar í gerð bifreiða eru svo hraðstígar og kröfurnar til þeirra eru að aukast svo mikið, að mér er sagt, og það með talsverðum líkum, að ekki muni hægt að fá til landsins mikið mjórri bifreiðar en gert er ráð fyrir í frv.

Það er auðvitað rétt hjá hv. 1. landsk., að það verða erfiðleikar með bifreiðar á vegum hér, ef breytt er verulega frá því, sem nú er með breidd bifreiða. Það eru líka mikil óþægindi á því, hvernig þjóðvegir eru víða lagðir, því að þeir eru svo illa gerðir. Þeir eru svo mjóir, að illt er fyrir bifreiðar að mætast þar, og ekki heldur nægilega mörg útskot til að bifreiðar geti séð hvor til annarar á nægilega löngu færi til að geta stanzað á þessum útskotum. A. m. k. er ekki hugsað um að hafa útskotin þar, sem hættulegt er fyrir bifreiðar að mætast, t. d. þar, sem mishæðótt er eða bifreiðarnar sjást ekki fyrr en alveg er komið að þeim, heldur eru þessi útskot með tilteknu millibili, en virðist ekki tekið tillit til þess, hvað hentugast er fyrir umferðina. Þau virðast vera eftir einhverjum mælingum án tillits til þess, hvernig landslagið er eða hvernig til hagar með veginn.