20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (1092)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það liggur í augum uppi, að kjördæmaskipunin og skipun Alþingis er eitt af stærstu og þýðingarmestu málum hvers þjóðfélags. Eigi að stofna til breytinga á því, þá er um að ræða eitt hið þýðingarmesta í íslenzkri löggjöf. Það liggur því í augum uppi, að þegar þetta mál kemur á dagskrá, þá sé sjálfsagt, að það fái sem vandaðasta meðferð og slíkan undirbúning sem svo stóru máli hæfir. Ég álít, að um fá mál sé hægt að segja með eins miklum rétti, að sjálfsagt sé að athuga það í milliþinganefnd, eins og þetta mál, bæði að athuga það frá öllum hliðum, þeim hliðum, sem vita inn á við, og fá sem beztar fregnir af því, hvernig aðrar þjóðir skipa þeim málum og hvaða rök liggja til þeirra skipana. Ég geri ráð fyrir því, að samkomulag verði milli flokkanna um að taka málið til meðferðar með ró, þó að það sé vitað fyrirfram, að þegar ákveða á einstök atriði, muni leiðir skiljast. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að á þessu stigi málsins þurfi ekki að verða miklar umr., heldur fái nefndin það fyrst til meðferðar. Þess vegna mun ég ekki gefa tilefni til, að farið verði út í einstök atriði á þessu stigi málsins, heldur muni þær umr. koma síðar. En ég vil geta þess, að það atriði, hvernig kosið yrði í þessa mþn., geri ég ekki að aðalatriði. Það fyrirkomulag, sem stungið hefir verið upp á, er hliðstætt fyrirkomulaginu 1927, þegar kosið var í mþn. í búnaðarmálum. Ég vil svo leggja til, að umr. um málið verði frestað og því vísað til allshn.