17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Ég er hv. frsm. yfirleitt samdóma um það, að það hafi verið óhjákvæmilegt að breyta frv. á þann hátt, sem gert hefir verið, þannig að sú nýja deild, verkamannabústaðirnir, fylgdi að því leyti sem eðli málsins leyfir. Það er nokkur hætta um svona stofnun ef eitthvað kæmi til að draga heildina niður. Ég held, að hv. Nd. hafi ekki gætt þess alveg fyllilega, að svo mátti ekki vera.

Af því að rætt er um þetta mál í sambandi við veðdeildina, þá vil ég láta ánægju í ljós, hvað gengur fljótt og vel með þetta frv. Það er vegna þess, að það er sem stendur einasta sýnilega vonin um það, að það sé hægt að skapa eðlilegan markað fyrir íslenzk verðbréf. Sú leið, að ríkið taki lán og láni veðdeild, er ófær til lengdar og ríkinu til stórskaða. Og jafnframt því hefir veðdeildin átt mjög örðugt með að selja sín bréf.

Þegar ég í haust sem leið hreyfði þessu máli fyrst, eftir ósk þáv. fjmrh., við Jón Krabbe í Kaupmannahöfn, þá komum við okkur saman um að reyna þessa leið til að skapa varanlegan markað fyrir verðbréf Landsbankans og Búnaðarbankans. Leiðin væri sú, að búa til einskonar millistofnun, sem tæki verðbréf okkar innlendu banka og gæfi út verðbréf í því formi, sem aðgengilegt er á heimsmarkaðnum. Síðan gerði Jón Krabbe frumdrög að skipulagi þessarar stofnunar, eftir beiðni þáv. landsstj., og er þetta frv. byggt á þeim grundvelli. Nú er aðeins eftir að reyna þegar Alþingi hefir gengið frá þessu máli, hvort það tekst smátt og smátt að koma okkar fasteignaverðbréfum inn á markað í Skandinavíu og Englandi. Menn mega náttúrlega ekki vera allt of bjartsýnir, að þetta beri mikinn ávöxt strax. Verðbréf okkar eru óþekkt, og það hlýtur að kosta tíma og fyrirhöfn að kynna þau. En þetta er eina eðlilega leiðin til að selja okkar verðbréf erlendis. Um innlenda markaðinn eru þær líkur, að í svo fátæku landi verði alltaf minni eftirspurn en framboð, en sjálfsagt er að nota hann út í yztu æsar.

Ég álít það mjög eðlilegt og nauðsynlegt að breyta á næsta þingi frv. um verkamannabústaði og m. a. færa í samræmi við þessi væntanlegu lög, eins og fjhn. lagði til. Þessa er því fremur óskandi, sem allar líkur eru til, að á næsta ári verði að leggja mesta áherzlu á það að komu upp smáhúsum fyrir starfsfólk landsins fyrir það takmarkaða fé, sem varið verður í húsabyggingar.