17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Þessi litla fyrirspurn, sem ég bar hér fram, er nokkuð utanveltu við þær umr., sem hér hafa farið fram í deildinni, og því vil og drepa lítið eitt á það mál, sem rætt hefir verið.

Ég vil taka undir það, að það virðist harla skrítið af hæstv. fjmrh., að hann skuli ekki gefa neina skýrslu um afkomuna um leið og hann leggur fram fjárlögin. Segjum svo, að ekki hefði verið hægt að gefa skýrslu um afkomuna fyrstu sex mánuði þessa árs, þá hefði þó alltaf verið hægt að leggja fram endurskoðaða skýrslu fyrra árs. Það er nú svo með þessar skýrslur, að þær eru alltaf ófullkomnar og aldrei réttar til fulls, en sérstaklega hefir þó borið á því, að þær væru rangar í tíð framsóknarstj. Um fyrri skýrslu fyrrv. fjmrh. er það að segja, að þar munaði svo miklu, að aldrei hefir eins verið, og maður getur því búizt við, að ræðu hans hafi verið mjög ábótavant í síðara skiptið, þó að ég minnist ekki á allar rökvillurnar, heilaspunann og vitleysurnar, sem þar úði og grúði af, og ekki er hægt að búast við, að nokkur framsóknarmaður fáist til að leiðrétta. Þetta hefði hæstv. fjmrh. átt að gefa sér tíma til að athuga áður en hann lagði fram fjárlögin. Þá fannst hæstv. ráðh. það skrítið, að hér skyldu hafa talað tveir menn um það alvarlega ástand, sem nú er ríkjandi, og annar hefði talað fyrir hönd verkalýðsins, en hinn fyrir hönd atvinnurekenda. Þetta er ekki neitt undarlegt, þar sem það er vitað, að búið er að koma atvinnumálunum í eitt hið mesta öngþveiti, sem enn hefir þekkzt.

Ég býst við, að margir hafi brosað með sjálfum sér, er hæstv. ráðh. talaði um, að Framsókn væri ekki stéttarflokkur, en engum dylst það, að hann hefir á sér það einkenni afturhaldsflokka, að hann er illvígur stéttarflokkur, sem hefir sótt allt sitt fylgi til einnar stéttar — bændanna — og svo á síðari árum til annarar, ef stétt skyldi kalla, þeirra manna, sem keyptir hafa verið með bitlingum. Það er líka dálítið skrítið, að einmitt í þeirri sömu ræðu, sem hæstv. ráðh. talar um það, að Framsókn sé ekki stéttarflokkur, skuli hann líka neyðast til að afsaka pésana, sem sendir hafa verið út um sveitir, fullir af meiðyrðum um einstaka menn, í stað þess að lýsa óhlutdrægt þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim svörum, sem hv. þm. V.-Ísf. hafði fram að bera við fyrirspurn minni. Ég verð að segja, að þau voru algerlega ófullnægjandi. Hann sagði, að reglurnar um útvarp hefðu aðeins verið settar fyrir síðasta þing, en nafn þeirra ber það þó með sér, að svo er ekki, því að þær heita: „Reglur um útvarp frá Alþingi“.

Það er líka hægt að sanna, að þetta er rangt hjá hv. þm. Um það leyti, sem reglur þessar voru settar, var fjmrh. búinn að halda fjárlagaræðu sína, og það nær því ekki nokkurri átt, að farið hefði verið að setja reglur um það, sem liðið var, ef tilætlunin hefði verið sú, að þær skyldu aðeins gilda þetta eina þing.

Ég minnist þess líka, að ég sá auglýst í einhverju blaði, að guðsþjónustunni við Alþingissetninguna skyldi útvarpað, og er komið var hingað upp í salinn, stóð hér hljóðnemi, þannig að ég bjóst við, að Alþingissetningu skyldi útvarpað, en máske er það aðeins guðsorðið eitt, sem bændurnir mega fá að heyra.

Það er annars harla merkilegt með útvarpið hér frá Alþingi. Við síðustu þingsetningu biluðu tækin; hrukku sennilega svo við, af því að húrrahrópin fóru fram öðruvísi en vanalega, að taug slitnaði. Þá átti að útvarpa fjárlagaræðu ráðherrans og umr. að nokkru, en þegar hann hafði lokið ræðu sinni, var hætt að útvarpa. Það átti að útvarpa vantraustsumræðunum, og þjóðin beið full eftirvæntingar, en fékk svo ekkert annað að heyra en að þulurinn skýrði frá því, að konungur hefði rofið Alþingi, og hefði það þó ekki brotið neitt í bág við þær ströngu reglur, sem settar höfðu verið, þótt þjóðin hefði fengið að hlýða á hæstv. forsrh. lesa upp boðskap konungs um þingrofið, svo að hún hefði fengið eitthvað að heyra frá Alþingi sjálfu. Sem sagt, ekkert annað hefir Alþingi orðið vart við frá útvarpsstj. en vanrækslu eina, því að allt hefir farið í handaskolum, þegar átt hefir að útvarpa.

Ég vil að endingu leggja áherzlu á það, að svör hv. þm. V.-Ísf. eru mér algerlega ófullnægjandi, og vildi ég spyrja hann að því að lokum, hvort sú væri ætlunin, að hætt verði að útvarpa öllu frá Alþingi nema guðsþjónustunni. Er það hið eina, sem Framsókn, eða hinn sannkallaði afturhaldsflokkur, vill bjóða bændunum sínum upp á?