20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (1107)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Formenn beggja andstöðufl. hafa nú talað nokkur orð út af þessari till. og látið í ljós sína skoðun. Þeir hafa báðir sagt, að það kæmi sér mjög á óvart, að stj. bæri fram slíka till. Mér kemur það mjög á óvart, að hv. þm. skuli láta þessa skoðun í ljós, þar sem ég a. m. k. skrifaði í vor fyrir kosningarnar ýtarlega grein í víðlesnu blaði um þetta mál og lét þar ótvírætt í ljós, að ég áliti tímabært, að endurskoðun færi fram á þessum málum. Þessi till. er því í fullu samræmi við það, sem ég sagði fyrir kosningarnar.

Báðir hv. þm. komu fram með almennar aths. út af rofi þingsins, út af skipun þessa þings og hvernig það eigi að verða skipað í framtíðinni. Ég tel ástæðulaust við fyrri hluta fyrri umr., og yfirleitt í sambandi við slíka till., að fara inn á slíkar aths. og leiði þær þess vegna hjá mér. Ég skal þó aðeins láta í ljós, að ég er þar í mörgu mjög á öðru máli en þeir og tel, að fyrir því megi finna mörg góð rök, alveg eins og þeir þykjast hafa fært rök fyrir sínu máli.

Um stjórnarskrárbreytinguna skal ég ekki heldur tala nú. Ég býst við, að til þess gefist síðar tækifæri hér í þinginu, og fjölyrði því ekki um það mál nú.

Hv. 1. landsk. sagði, að með þessari þáltill. væri blásið til undanhalds í baráttu Framsóknarflokksins móti réttlætinu. En tilgangur okkar er sá, að rannsaka sem bezt og afla sem beztra upplýsinga um þetta þýðingarmikla mál, hvernig lög eru sett, hvernig stjórn ríkisins eigi að fara fram og með hverjum hætti fulltrúar þjóðarinnar séu kosnir.

Við ætlum eins og andstæðingar okkar að láta það koma fram, sem er í samræmi við réttlætíð, ekki eingöngu hversu mikil höfðatala hvers flokks sé, heldur líka með tilliti til annara hluta, sem einnig verður að athuga, en ég dreg ekki inn í umr. nú. Þetta er ekkert undanhald í baráttunni móti réttlætinu, heldur leið til þess að finna réttlætíð, sú leið, sem farsælust er, að draga fram allt, til þess að kjósendur og þing geti áttað sig sem bezt á málinu.

Hv. 1. landsk. vildi skilja orð mín svo, að óheilindi mundu vera á bak við, þar sem ég gerði ráð fyrir, að leiðir mundu skiljast. Hann sagði, að fyrst ég væri viss um, að svo mundi verða, þá væri ástæðulaust að skipa slíka nefnd sem hér er um að ræða. En ástæðan til þess, að ég geri ráð fyrir, að leiðir muni skilja, er sú, að á þeim stjórnmálafundum, sem ég var á fyrir kosningarnar í vor, þá komu fram í þessu máli skoðanir leiðandi manna í báðum andstæðingaflokkunum, sem ég get ekki gert ráð fyrir, að Framsóknarflokkurinn geti orðið samþykkur.

Hv. 1. landsk. bar fram þá fyrirspurn, hvort ég ætlaðist til þess, að rannsókn þessa máls yrði lokið fyrir næsta þing. Því er þar til að svara, að það er ætlazt til þess, að n. ljúki störfum sínum svo fljótt, að rannsókn málsins liði ekki fyrir það, og þegar þeirri rannsókn er lokið, sé þetta mál lagt fyrir þingið. Ég skal engu spá um það, hvort þessari rannsókn verður lokið fyrir næstk. febrúar. Framsóknarfl. mun ekki stemma stigu fyrir því. Við munum kjósa þá menn í þessa nefnd, er taka þetta mál til athugunar, og þegar það hefir verið forsvaranlega rannsakað, verður það lagt fyrir þingið.

Það hefir verið stungið upp á því, að sama nefnd fjalli um þetta mál og stjórnarskrármálið. Ég er því ekki ósamþykkur, en ég býst við, að Framsóknarfl. sé ekki enn búinn að ákveða stjórnarskrárnefnd.

Hv. 2. landsk. hafði orð um, eftir hvaða aðferð milliþinganefndin skuli kosin og ber fram brtt. um það efni. Ég geri þá till., sem stjórnin stingur upp á, ekki að neinu aðalatriði og er fús á að ræða um þetta efni við hv. þm.