20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (1119)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. fór þeim orðum um mína brtt., að ég finn ástæðu til að tala aftur um þau mál.

Hæstv. ráðh. bauð mér að tala við stj. utan funda um þetta mál. Ég tel rétt, að þær umr. fari fram hér á þinginu. Og hvort sem hæstv. stj. fellst á þá tilhögun, sem ég hefi farið fram á, þótt það verði ekki fyrr en við síðari umr. málsins, þá verður aldrei neinn vafi á, hvernig undirbúningur málsins hefir verið.

Ég hefi hingað til aðeins talað um formshlið málsins, þ. e. hvernig nefndin eigi að vera skipuð. En nú þykir mér sýnt, að hér á aðalumr. málsins að fara fram, og vil því slá því föstu, sem farið er fram á í till. á þskj. 71, að það sé höfuðhlutverk mþn. að gera rökstuddar till. um, hvernig bezt verði tryggt, að þingmannatala hinna ýmsu flokka á Alþingi sé jafnan í sem fyllstu samræmi við kjósendafjölda þeirra. Þetta er það atriði, sem n. á að hafa fyrir leiðarvísi. Hitt atriðið er það, að Alþingi verði aldrei svo skipað, að minni hl. geti hindrað þau mál, sem meiri hl. þjóðar og þings vill, að nái fram að ganga. Nú er þingið þannig skipað, að Framsóknarfl. getur ekki ráðið í þinginu. Þótt hann hafi 23 þm. á þinginu og geti ráðið störfum Nd., getur hann ekki komið fram málum í Ed. nema í sambandi við andstöðuflokkana.

Þó að kosningarrétturinn til Ed. sé mjög takmarkaður, þar sem þeir einir, sem orðnir eru 35 ára, hafa atkvæðisrétt við landskjörið, eru þó þessir 6 landsk. þm. kosnir eftir þeim grundvallarreglum, sem gilda í flestum menningarlöndum um kosningarrétt til þjóðþinganna, — þeim reglum, að hver flokkur kjósenda fái fulltrúa eftir atkvæðamagni sínu. Og þó að Ed. sé nú svo skipuð, vegna landskjörsins, að Framsóknarflokkurinn getur ekki komið hér fram málum sínum af eigin rammleik, enda þótt flokkurinn hafi meirihlutaaðstöðu í kjördæmunum, verður slíkt ekki gefið landskjörinu að sök, heldur er um að kenna fyrirkomulagi kjördæmakosninganna, sem er með þeim rangindum, að meiri hl. kjósendanna í landinu ber stórskarðan hlut frá borði um fulltrúaval á Alþingi. Ætti það varla að geta verið, umræðumál, að þessu fyrirkomulagi þarf að breyta, svo að meiri hl. þjóðarinnar ráði um úrslit þjóðmálanna.

Ég álít rétt, að umr. verði ekki frestað úr þessu, því að lítið mun verða um ræðuhöld hjá deildarmönnum við síðari hl. umr., ef flestir þeirra tala nú svo sem þingsköp veita leyfi til. A. m. k. verður sá flokkurinn, sem hefir aðeins einum fulltrúa á að skipa, illa úti með því móti. Teldi ég því rétt, að þessari fyrri umr. yrði lokið hér í dag og till. vísað til síðari umr.

Þá vildi ég ennfremur ræða við hæstv. forsrh. í opnu þingi um skipun þessarar n. og starfslínur hennar. Í till. stj. er ekki dregin nein lína um störf n., heldur er allt óákveðið í því efni. Er þetta mjög óaðgengilegt, einkum fyrir þann flokkinn, sem útilokaður er frá að koma manni í n., ef till. verður samþ. eins og hún er nú. Frá mínu sjónarmiði er því óhjákvæmilegt, að till. verði breytt, og mun ég ekki greiða henni atkv., nema svo verði gert. Hitt læt ég mig minna skipta, hvort mín brtt. verður samþ. eða önnur, sem í sömu átt gengur. — Ef sú er ekki tilætlun stj. með þessari till. að gera úrbót á kosningafyrirkomulaginu, er hér um loddaraleik að ræða, til þess að fá frestun á málinu, og gert í því trausti, að Ed. verði viðráðanlegri um þau mál, sem stj. þarf að koma fram. Stj. gerir ráð fyrir því, að hugirnir muni dofna fyrir þessu máli, ef því er slegið á frest. Ég álít því rétt að leggja strax þær línur, sem fara á eftir í aðaldráttum við meðferð þessa máls, og n. verði svo falið að útfæra þær.