20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (1122)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jónas Jónsson:

Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Reykv. furðaði sig á því, að stj. skyldi bera fram þessa þáltill. Þessi furða hv. 1. þm. Reykv. kemur mér undarlega fyrir sjónir, þar sem fyrir síðasta þingi lá stjfrv., sem fór fram á breyt. á stjskr. og að nokkru leyti á kosningafyrirkomulaginu, þar sem var niðurlagning landskjörsins. Upp úr þessu frv. varð svo til hið nafnkunna samband jafnaðarmanna og íhaldsmanna, og laut að því, að gera skyndilega breytingu á lýðræðinu í landinu. Ef hv. 1. þm. Reykv. veit ekki um þetta, vil ég benda honum á þskj. frá þinginu í fyrra; þar er næga fræðslu að fá um þessi efni. Meðal annars kemur þar í ljós, að þessi breyt. átti að fara fram á einu ári, því að till. flokksbræðra hans gengu út á það, að nýjar kosningar skyldu fara fram árið 1932. Hér er því um sögulega ónákvæmni að ræða hjá hv. 1. þm. Reykv., eða þá að hann hefir ekki áttað sig á þeim atburðum, sem hér urðu í vor.— Þetta frv., sem ég nefndi, fól í sér einfaldar breyt. á kosningafyrirkomulaginu, en framkoma frv. varð til þess, að flokkur hv. þm. og annar flokkur til komu fram með óhugsaðar brtt. í málinu. Finnst mér, að þessir flokkar, sem að leynisamningunum stóðu um þetta mál í vetur, megi nú vel við una að treysta málstað sínum við þá rannsókn, sem hér er farið fram á, úr því að svo illa tókst til, að leynimakkið lánaðist ekki, af því að kjósendurnir voru ekkert sérlega ánægðir með það. Og ég er ekki viss um, að nýjar kosningar færu neitt betur fyrir flokk hv. 1. þm. Reykv. heldur en þessar síðustu kosningar. Það er öðru nær en að nokkuð það hafi fram komið, sem bendi til þess, að hinar síðustu aðfarir hv. 1. þm. Reykv. og flokks hans eigi nein sérstök ítök meðal þjóðarinnar.

Út af þeirri hótun hv. Í. þm. Reykv., að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki fá neinn frið, beindi ég þeirri ósk til þessa hv. þm., að hann skýrði þetta nánar, og læt ég mér þó reyndar í léttu rúmi liggja, hvað þm. meinar með þessari hótun. Ef hv. þm. á með þessu við organiserað ofbeldi, eins og komið hefir fram í vissum málgögnum flokks hans, má hann það fyrir mér, en ég hélt, að flokkur hv. þm. hefði komizt að raun um það, að slíkar tiltektir eru ekki vel til þess fallnar að auka traust eða hróður flokksins. Hv. þm. hefir sjálfur orðið til þess að hindra ofbeldi, sem fremja átti gagnvart vinsamlegri, erlendri þjóð, og á hann lof skilið fyrir, en það sýnir, að þessi þm. hefir sjálfur verið farinn að óttast öfgarnar, sem hann þó átti sinn þátt í að vekja. Ætti þessi hv. þm. því að skilja, að flokkur hans græðir ekki á slíkum hótunum um friðleysi. Ef hv. 1. þm. Reykv. hefir hinsvegar átt við áframhaldandi fræðslu og umr. um þetta mál, er þar ekki um að ræða önnur friðslit en þjóðskipulagið leyfir, og þessi till. er einmitt uppástunga um ófrið af þessu tægi — hugsanaófrið, rannsóknarófrið, eða hvað menn nú vilja kalla það. Ef hv. 1. þm. Reykv. getur ekki gert sig ánægðan með slíka rannsókn, þá eiga orð hans við það fyrra, sem ég nefndi. Þá vill hann láta brúka ofbeldi, og það má hann gjarnan fyrir mér. Flokkur þm. hefir skaðazt af því ofbeldi, sem hann hefir beitt til þessa, og honum er velkomið að skaða sig meira, fyrst flokkurinn endilega vill það svo. Þeir eiga um það við sjálfa sig, hv. 1. þm. Reykv. og flokksbræður hans. — Úr því að þeir virðast svona samhuga socíalistum um það, hv. 1. landsk. þm. og hv. l. þm. Reykvíkinga, að ekkert réttlæti sé í því, að socialistar hafi Seyðisfjörð, miðað við það atkvæðamagn, sem er að baki flestum öðrum þm., væri annars nógu gaman að fá að heyra, hvað þeir segja um till. yngsta stjórnmálaflokksins hér á landi, sem ganga út á það að skipta eignunum réttlátlega niður. Ef fara á eftir höfðatölunni einni um skipun Alþingis, fæ ég ekki séð, hvað er á móti því að skipta eignunum réttlátlega á milli einstaklinga þjóðfélagsins, svo að farið sé að till. þessa annars byltingaflokks, sem vex og dafnar vegna þess skjólgarðs, sem hlaðinn hefir verið um hann af hv. 1. þm. Reykv. og samherjum hans. Það gæti verið rannsóknarefni út af fyrir sig, hvaða vit er í því, að ein fjölskylda eyðir 50 þús. kr. á ári, til þess að geta haldið sig „flott“ og lifað mest í nautnum, þegar önnur fjölskylda verður að byggja alla afkomu sína á t.d. 1000 kr. Þetta er interessant, og enginn vafi á því, að íhaldsmenn fá að heyra um þetta hjá öðrum, þó að ekki verði það hjá okkur framsóknarmönnum. En það hefir ekki verið tekið vel í uppástungur um framkvæmd þessa réttlætis hjá flokksmönnum hv. 1. þm. Reykv. A. m. k. ekki til þessa dags.

Án þess að ég ætli að fara að ræða efni þessarar till., vil ég benda hv. þm. á það, að miðað við það, sem tíðkast víðast erlendis í þessum efnum, er ekki um neinn ójöfnuð hér að ræða, nema ef vera skyldi hvað Reykjavík snertir, og býst ég við, að það mundi koma í ljós við rannsókn á þessu máli, að svona hlutir eru ekki taldir neitt voðalegir erlendis; t. d. hefir Lundúnaborg aðeins þriðjung þeirra þm., sem henni bæri samkv. íbúatölu sinni. Dettur þó engum Lundúnabúa í hug að vera með hótanir um byltingu eða uppreisn af þessum sökum. Átti ég nýlega tal við einn mikilsvirtan Englending um þessi mál, og sagði hann, að við skyldum bara vera rólegir út af þessu. Annað eins og þetta þætti ekki athugavert í Englandi. — Þessir hlutir og ótal aðrir í sambandi við skipun þingsins eru með öllu órannsakaðir. Ef hv. 1. þm. Reykv. og samherjar hans vilja ekki rannsókn á þessu máli, er það af því, að þeir vilja, að sama þekkingarleysið og fáfræðin, sem verið hefir í þessum efnum, ríki áfram, bæði hjá sjálfum þeim og öðrum. Annars virðast íhaldsmenn ekki hafa fundið neitt til þessa ójafnaðar, sem þeir kalla svo, fyrr en nú, þegar þeir eru búnir að tapa fylginu úti um land. Á meðan þeir höfðu Seyðisfjörð, Barðastrandarsýslu, Skagafjörð og Dalina voru þeir ekkert uppnæmir út af þessum hlutum, og geta þeir því sannarlega ekki verið neitt hissa á því, þó að þjóðin stökkvi ekki upp til breytinga á þessu fyrirkomulagi af því, að þeir hafa nú orðið undir. Vil ég skjóta því hér fram, að ég fæ alls ekki séð, að Reykjavík líði undan hallæri af þingmannaleysi. Þó að maður taki mæta menn, eins og hv. 1. og 4. þm. Reykv., held ég, að erfitt yrði að benda á, að Reykjavík hafi munað um að hafa þá á þingi. Það, sem Reykjavík þyrfti að fá, eru góðir og hæfir þm., sem legðu eitthvað fram til uppbyggingar bæjarins og þjóðarinnar í heild sinni. Reykjavík þarf t. d. að fá ódýr hús, ódýrar lóðir, ódýran mat og betri aðstöðu til handa bæjarbúum um ljós og sól. Hvorki hv. 1. né 4. þm. Reykv. hefir nokkru sinni dottið þetta í hug. Annar þeirra hefir þó lengi verið ritstjóri eins af bæjarblöðunum, en aldrei gert neitt til gagns. Vil ég skjóta þessu til hv. 1. þm. Reykv., af því að nú kemur í hlut Framsóknarflokksins að vinna þessi handtök. Mér skildist líka svo á ræðu hv. 1. þm. Reykv., að honum hefði orðið bumbult við að sjá, að „óvinir“ Reykjavíkur, eins og hann kallar okkur framsóknarmenn, skyldu hafa hér ekki minna fylgi en hann sjálfur hafði, áður en hann gekk á hönd þeim óvinum sínum, sem hann sjálfur hafði herfilegast lýst í blaði sínu.