20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (1124)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. landsk. þm. vildi leggja þessa till. svo út, sem við framsóknarmenn viðurkenndum með henni, að við hefðum barizt móti réttu máli. Þessu vil ég eindregið mótmæla. Till. sýnir hinsvegar, hvernig við álítum, að taka eigi á máli eins og þessu, sem hefir svo víðtæk áhrif á afkomu þjóðarinnar. Við viljum ekki láta afgr. slíkt stórmál af skyndingu, heldur láta fram fara ýtarlega rannsókn, þar sem öll málsatriði eru lögð á borðið. —

Hv. 1. landsk. þm. sagði í þessu sambandi eitthvað á þá leið, að sér stæði á sama um það, hve margar bækur væru ritaðar um málið af framsóknarmönnum. (JónÞ: Langar og litaðar. sagði ég). Gott og vel. Í því liggur, að þm. líti svo á, að ekki þurfi að upplýsa málið frekar. Við framsóknarmenn álítum hinsvegar, að málið sé svo flókið og vandasamt, að nauðsynlegt sé að rannsaka það sem rækilegast og frá sem flestum hliðum. Afla sér t. d. upplýsinga um fyrirkomulag þessara mála með öðrum þjóðum og læra af þeim, t. d. Englendingum, sem eru sú þjóðin, sem lengst hefir búið við þingræði.

Þá var hv. 1. landsk. þm. að lýsa eftir því, sem hefði komið fram hjá okkur framsóknarmönnum um þetta mál á pólitískum fundum við síðustu kosningar, og þóttist hann vita svo mikið af skoðunum okkar að segja, að ekki mundi geta verið um samleið að ræða um lausn málsins. Ég skal segja hv. l. landsk. þm., hvert er aðalatriði þessa máls í augum okkar framsóknarmanna. Þetta atriði er það, að farið er fram á að svipta héruðin réttinum til að hafa sérstaka fulltrúa. Legg ég ríka áherzlu á þetta og mun aldrei fást til samkomulags til breytinga á kjördæmaskipuninni á þeim grundvelli, að héruðin verði svipt þessum rétti.

Hv. 1. þm. Reykv. þarf ég aðeins að svara örfáum orðum. Mér skildist svo sem hann hefði staðið upp af því, að hann hafi skilið orð mín um „rólega athugun“ þessa máls, sem ég viðhafði í fyrri ræðu minni, eins og ásökun á aðra, sem ekki hefðu beitt „rólegri athugun“ í þessu máli. Ég meinti ekkert í þessa átt — hver sem skoðun mín annars kann að vera um framferði sumra manna út af þessu máli. Ég átti aðeins við það, að nauðsynlegt væri, að svo mikið mál sem þetta færi í mþn. og fengi þar sem rækilegasta meðferð. Hver beri ábyrgð á því umróti, sem hér varð í vor — um það ætla ég ekki að fara að deila við hv. 1. þm. Reykv. hér. Um það getum við rifizt í blöðunum, ef okkur langar til. En ég vildi drepa á annað atriði, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann fór allmörgum orðum um það, að það gæti aldrei gengið til lengdar, að minni hl. kúgaði meiri hl., og virtist sú hugsun liggja þar á bak við, að meiri hl. þjóðarinnar hafi með síðustu kosningum lýst yfir því, að hann aðhylltist það samkomulag, sem orðið hefir á milli socialista og íhaldsmanna í kjördæmamálinu. Ég lít svo á, að þessi grundvöllur sé ótraustari en hv. 1. þm. Reykv. vildi vera láta. Fyrst og fremst er það ekki rétt, eins og gert er í blöðum sjálfstæðismanna, að taka annarsvegar atkv. Framsóknarflokksins og hinsvegar öll önnur atkv. og segja svo, að þetta og þetta mörg atkv. séu með kjördæmaskipuninni og þetta og þetta mörg á móti. Skal ég taka nokkur dæmi þessu til sönnunar. — Vil ég þá fyrst benda á það, að ekki er rétt að taka atkv. kommúnista með í þessu sambandi. Þau eru ekki greidd um kjördæmaskipunina, heldur á móti þjóðfélagsskipulaginu. Og þar sem kommúnistar ráða, er fjarri því, að þeir hafi slíka kjördæmaskipun og hv. 1. þm. Reykv. hallast að. Þar sem þeir ráða, er ekki almennur kosningarréttur. Þar fá ekki aðrir að kjósa en þeir, sem eru flokksmenn. Það er því bert, að atkv. kommúnista ber að taka burt í þessu sambandi. — Í öðru lagi vil ég henda á það, að þeir utanflokkamenn, sem buðu sig fram við síðustu kosningar, voru báðir andvígir hinni nýja kjördæmaskipun. Það ber því einnig að draga atkvæðatölu þeirra frá, en bæta henni við okkur framsóknarmenn.

Þriðja atriðið, sem ég vildi vekja athygli á, er það, að sumir samflokksmenn hv. 1. þm. Reykv. tóku það beinlínis fram fyrir kosningarnar, að þeir væru andvígir kjördæmabreytingunni. Svo var t. d. um frambjóðanda flokks hv. þm. í Dalasýslu, Sigurð Eggerz. Hann kvað sig óbundinn af nokkru samkomulagi um þetta mál, en tjáði sig á hinn bóginn mótfallinn hlutfallskosningum og vildi halda einmenningskjördæmunum. Atkvæðatala hans á því einnig að dragast frá og bætast við okkur framsóknarmenn.

Mörg fleiri dæmi af þessu tægi er hægt að nefna. Tökum t. d. Skagafjarðarsýslu. Sá af frambjóðendum íhaldsins, sem kosinn var í þeirri sýslu, lýsti því beinlínis yfir, að hann væri á engan hátt bundinn í þessu máli, hann væri á móti því, að bændurnir og landbúnaðurinn misstu nokkurs við breytingar á kjördæmaskipuninni, og að hann væri reiðubúinn til þess að ganga til samninga við Framsóknarflokkinn um málið. Kjósendur þessa hv. þm. hafa því alls ekki greitt atkv. með kjördæmaskipun íhaldsmanna, heldur þvert á móti með rólegri athugun á málinu.

Hið sama verður uppi á teningnum í Rangárvallasýslu. Frambjóðendur Íhaldsflokksins þar viðurkenndu alls ekki kjördæmaskipun flokksbræðra sinna, og heldur ekki frambjóðandinn í Barðastrandarsýslu. Svona má halda áfram kringum landið.

Grundvöllurinn undir tali hv. 1. þm. Reykv. um meiri og minni hl. þjóðarinnar í þessu máli er því miklu veikari en hv. þm. heldur. Það kom t. d. oft fyrir, að stuðningsmenn íhaldsframbjóðenda lýstu því yfir á fundum, að þeir kysu frambjóðendur síns gamla flokks, en ef þeir ætluðu sér að gera þær breytingar á kjördæmaskipuninni, sem flokkurinn léti í veðri vaka, þá myndu þeir ekki kjósa þá framar. Tölur þær, sem hv. 1. þm. Reykv. ber hér á borð, eru því rangar og villandi, því vitanlega er ekki hægt að segja í tölum, hvernig landsmönnum eigi að skipta í meiri og minni hl. í þessu máli, þar sem meiri hl. af samflokksmönnum hv. l. þm. Reykv. utan Reykjavíkur vildi ekkert kannast við kjördæmaskipun flokksbræðra sinna fyrir kosningarnar, eins og ég þegar hefi sýnt fram á.

Hv. 2. landsk. þarf ég engu að svara. Ég er sammála honum um það, að umr. um þau atriði, er hann nefndi, fari fram hér á Alþingi, en ég tel rétt, að það verði eigi fyrr en n. hefir fjallað um málið og atkvgr. farið fram um einstök atriði þess.