08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (1129)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Mér þykir það hálfundarlegt, að hv. frsm. skuli ekki vilja taka hér til máls, en ég hafði hugsað mér að láta nokkur orð fylgja þessari till., og get ég sagt það, sem ég hefi að segja, meðan hv. frsm. hugsar sig um.

Eins og kunnugt er, hefir Sjálfstæðisflokkurinn borið fram kröfuna um réttingu stjskr. og kjördæmaskipunar í þá átt, að Alþingi verði svo skipað, að allir flokkar fái þar fulltrúa í réttu hlutfalli við atkvæðamagn sitt. Hitt var óráðið mál, á hvern hátt þessu almenna réttlæti kjósendum til handa yrði bezt náð, og við getum því fallizt á, úr því að hæstv. stj. ber það fram og Framsóknarflokkurinn styður það, að milliþinganefnd verði skipuð í málið og skuli hún rannsaka það og koma fram með þær brtt., sem hún telur, að óhjákvæmilegt sé að gera. Við fáum ekki séð, að skipun slíkrar nefndar geti orðið málinu til nokkurrar tafar, því að vitað er það, að tillögur okkar fáum við ekki afgreiddar til fullnustu á þessu þingi, en nefndin bæri fram till. sínar jafnframt því sem stjskrbreyt. yrði tekin til meðferðar öðru sinni.

Eins og menn muna, kom þegar við fyrri umr. fram brtt. frá hv. 2. landsk. Hún fer í svipaða átt og brtt. n. um skipun þessarar mþn., en svo gengur hún lengra hvað því viðvíkur, að hún kveður á um, á hvaða grundvelli nefndin eigi að starfa, nefnilega á grundvelli stjskrfrv. okkar sjálfstæðismanna. Í n. náðist ekki samkomulag um það, að ákveða þetta í till., en okkur fannst ekki ástæða til að setja það á oddinn. Við höfum ekki látið það standa fyrir samkomulagi, þó það fengist ekki inn í till., en munum greiða atkv. með þessu atriði, þegar til atkv. kemur, í brtt. hv. 2. landsk.

Við höfum lagt mikla áherzlu á það í n., að málið yrði ekki dregið, sem frsm. hefði átt að lýsa, en ekki ég, og að svo væri til ætlazt, að mþn. geti skilað till. sínum fyrir næsta reglulegt þing, sem verður í vetur, svo framarlega, sem ekkert óvænt kemur fyrir. Við leggjum mikla áherzlu á það, að málið verði ekki dregið á langinn í höndum mþn., og vegna viðburðanna 14. apríl síðastl., sem af stj. hafa verið settir í samband við þetta mál, þá er krafa kjósendanna eindregin sú, að málið verði ekki dregið á langinn, en fái farsæla úrlausn eftir nauðsynlegan undirbúning.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta að svo stöddu, en óska fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, að till. fái afgreiðslu hér í deildinni og í hinni deildinni. og vænti svo þess, að nefndarskipun dragist þá ekki hjá stj.