08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (1134)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Það var rétt hjá hæstv. forseta, að það var búið að ræða þetta mál við fyrri hl. umr. og gerði ég þá grein fyrir brtt. mínum á þskj. 71. En ég get gjarnan minnzt á ofurlítið af því, sem ég sagði þá. Ég flutti brtt. í 2 liðum, annar liðurinn var um skipun n. eða formið, en hinn um það, hvernig ætti að vinna og hvað ætti að leggja til grundvallar fyrir starfi n., og er það hið sama, sem hv. 1. landsk. flutti í stjórnarskrárfrv., að hver þingflokkur fái þm. í hlutfalli við kjósendur. Þetta er það réttasta, sem hægt er að hugsa sér í þessu efni. Og út frá þessum grundvelli verður kjördæmaskipunarmálið afareinfalt, og þessu höfum við jafnaðarmenn haldið fram sem hinni eðlilegustu lausn, að landið væri gert að einu kjördæmi og allir þm. kosnir í einu lagi. Þetta er það, sem liggur til grundvallar í stjórnarskrártill. Sjálfstæðisflokksins. Nú sé ég, að þetta hefir ekki verið tekið til greina af stjskrn., heldur hafa báðir flokkar orðið sammála um að skipa n. á líkan hátt og ég lagði til, en líka að sleppa ákvæðinu um starfsgrundvöllinn. Þeir hafa sem sé tekið umbúðirnar, en ekki kjarnann.

Því hefir nú verið lýst yfir í deildinni, að þetta sé einn liðurinn í samkomulagi því, sem varð, þegar þeir sömdu um verðtollinn. Ég býst við, að þetta sé hinn óverulegasti hluti af því samkomulagi. Því í raun og veru er það enginn vinningur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá n. skipaða á þennan hátt. Sjálfstæðismenn hefðu annars komið einum manni í n., en jafnaðarmenn engum. En annars skiptir þetta engu máli. Kjördæmaskipunarmálið er svo einfalt, að það væri hægt að lúka því á þessu stutta sumarþingi á þann veg, að það væri í samræmi við hið ríkjandi fyrirkomulag annarsstaðar. Ég get engan veginn verið ánægður með þessa afgreiðslu á þáltill. stjórnarinnar. Ég get verið ánægður með skipun n., en sakna ákvæða um grundvöllinn. Mér þykir Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið lítilþægur í þessu, en ég tel vist, að svo slyngir samningamenn sem hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. hafi séð flokki sínum farborða á einhvern annan hátt, sem ef til vill kemur fram í embættaveitingum eða stjórnarmyndun, eða á annan hátt. En ég geri ráð fyrir, að þeir hafi svínbundið framsóknarstjórnina í einhverju fyrir það, að þeir héldu ekki fyrir henni þessum 2¼ millj. tekjum af verðtollinum, sem stjórnin þurfti að fá. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé fastbundið, en sýnilegi árangurinn er enn veigalítill fyrir Sjálfstæðisflokkinn; þó að n. sé þannig skipuð, að þeir fá meiri hl. í henni, sem vilja breytingu á kjördæmaskipuninni, þá er það ekki afgerandi á þinginu. Það hefði verið þýðingarmikið, að það, sem í minni till. felst, hefði verið samþ. og þeir fengið Framsókn til þess að ganga inn á það. Ég mun því greiða atkv. á móti brtt. stjskrn., því ég álít hana svo lítilsverða. Þó að við Alþýðuflokksmenn hefðum engan fulltrúa átt í n., þá hefðum við þó getað komið fram með álit okkar á þinginu. Það, sem mest er um vert, er að knýja fram með góðu eða illu þær breyt. á kjördæmaskipuninni, sem Framsóknarflokkurinn heldur með röngu fyrir meiri hl. þings og þjóðar.