08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1138)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að samkomulag hefir orðið um, að þessi leið verði farin, að málið verði sett í mþn., sem beri fram sínar till. í málinu að lokinni rannsókn. Ég hafði getið þess, að það mundi ekki standa á okkur framsóknarmönnum að ganga til samkomulags um það, hvernig n. yrði skipuð, og samþykki fyrir mitt leyti brtt. um það — Ég sé ekki ástæðu til að ræða almennt um málið, en ég tel víst, að þegar tilnefning kemur frá flokkunum, þá standi ekki á að skipa nefndina.