11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (1156)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Þessi till. var talsvert rædd við þá fyrri umr., sem fram fór um hana hér í hv. d., og hefði ég getað látið við það sitja, sem ég þá tók fram, en vegna þeirrar afgreiðslu, sem þetta mál fékk hér að lokum, get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð. Ég hafði flutt brtt. við þessa þáltill., þar sem til var tekin ákveðin skipun á þessari mþn. og jafnframt kveðið á um það, á hvaða grundvelli n. skyldi starfa. Stjórnarskrárnefndin gerði till. mína um skipun n. að sinni, og náði hún fram að ganga. Sjálfur lagði ég ekki frekari áherzlu á það atriði, heldur hið síðara, að n. yrði settur ákveðinn grundvöllur að starfa á, og þá sá grundvöllur, að þingfl. væru jafnan í samræmi við kjósendafjöldann, sem að baki hverjum þeirra stæði, og að ekki gæti það fyrir komið, að deildir Alþingis væru svo skipaðar, að minni hl. gæti hindrað meira hl. frá að koma fram málum sínum. Ég hafði búizt við því, að þessi liður brtt. minnar næði samþykki d., því að við atkvgr. stóð einmitt svo á, að einn þm. úr Framsóknarflokknum var ekki viðstaddur, svo að flokkurinn hafði ekki yfir að ráða nema 6 atkv. í d., en hinsvegar hafði mér skilizt svo, að sjálfstæðismenn væru mér sammála um þetta atriði og myndu því greiða till. minni atkv. En þetta fór á annan veg, því að hv. 1. landsk. varð til þess að fella till. og brást þannig þeirri stefnu, sem mér hafði skilizt hann halda fram í þessu máli. Ég efast um, að framsóknarmenn hefðu ráðizt í að breyta till. aftur við síðari umr., þó að brtt. mín hefði verið samþ., þar sem svo réttlátar kröfur eru bornar fram í henni, og hefði þá frekar mátt una við þessa nefndarskipun.

Mér þykir þessi atkvgr. annars henda til þess, að það hafi verið nokkuð stífir samningar, sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gerðu með sér út af verðtollinum hér á dögunum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir með þessu hvikað frá því meginatriði í þessu máli, sem flokkurinn til þessa virtist hafa verið sammála Alþýðuflokknum um, sem er skipun Alþingis með þeim hætti, sem getur í þessari brtt. minni og í frv. sjálfstæðismanna um breyt. á stjskr. Virðist mér þetta bera vitni um afslátt af hálfu Sjálfstæðisflokksins í málinu, en ég vona, að svo sé aðeins í bili. Ef til vill hefir og það verið eitt af samningsákvæðunum milli flokkanna, að fella skyldi þessa brtt. mína, svo mjög sem hún þó var þýðingarmikil að því er snertir þessa nefndarskipun. En það kemur betur í ljós síðar, þegar lengra er frá liðið, hverjir þessir samningar milli flokkanna hafa verið. Þeir, sem fylgjast með í stjórnmálunum, geta nokkurn veginn séð það, bæði í framkvæmdum stj. og eins mun það koma nokkuð í ljós við væntanlega stjórnarmyndun. — Læt ég svo lokið máli mínu að sinni. Ég vildi aðeins benda á þetta, af því að mér fannst atkvgr. á laugardaginn var bera vitni um stefnubreyt. hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, sem flokkurinn hafði efst við hún í kosningabaráttunni í vor.