11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (1157)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Mér þykir rétt út af ummælum hv. 2. landsk. að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls yfir höfuð, og þá jafnframt að því er snertir atkvgr. um brtt. hv. 2. landsk. við till. stj. við framhald fyrri umr. þessa máls.

Eins og kunnugt er, hefir Alþingi þrjár leiðir til að láta vilja sinn í ljós á formlegan hátt. Í fyrsta lagi með breyt. á stjskr., og er þar tilskilið, að breytingin hafi verið samþ. á tveimur þingum í röð við þrjár umr. í hvorri d. a. m. k., og að gengnum almennum kosningum á milli þinganna. Í öðru lagi með almennri löggjöf, sem háðar d. þingsins hafa samþ. gegnum þrjár umr. í hvorri d. a. m. k. Og í þriðja lagi með þáltill. sem lætur ræðzt við 1–2 umr. í báðum d. eða aðeins í annari d. Nú getur það verið álitamál, hvort unnt er að ná því marki, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir sett sér um að fá fram rétting á skipun Alþingis, þannig, að flokkarnir fái þingsæti í samræmi við atkvæðatölu sína, með almennri löggjöf, eða hvort stjskrbreyt. þarf til. Það eitt er víst, að þetta getur ekki orðið ákveðið með þáltill. Löggjöf þarf a. m. k. til, og við sjálfstæðismenn lítum helzt svo á, að þessu verði ekki komið fram nema með breyt. á stjskr., og höfum við þannig borið málið fram í því formi, sem við álítum réttast og að nægja muni, þar sem er frv. okkar um breyt. á stjskr. Ef nú hv. 2. landsk. hefði borið fram frv., sem hefði falið þetta í sér á einhvern tiltekinn hátt, hefði verið sjálfsagt að gefa því gaum og styðja að framgangi þess, svo framarlega sem hæstv. forseti hefði úrskurðað það stjskr. samkvæmt. En hv. 2. landsk. hefir ekkert gert í þessa átt.

Eins og ég áður sagði, er ekki hægt að kveða á um þetta með þáltill., og lít ég því svo á, að það hafi ekki afgerandi þýðingu fyrir meðferð þessa máls og afgreiðslu, hvort þessi þáltill. stj. verður samþ. eða ekki. Ég greiddi ekki atkv. á móti brtt. hv. 2. landsk., sem fór fram á það, að þessari væntanlegu mþn. væri settur ákveðinn grundvöllur að starfa á, en hinsvegar fannst mér þetta atriði út af fyrir sig þýðingarlítið, og af öðrum ástæðum gat ég látið vera að greiða atkv. um till. hans. Hv. 2. landsk. veit það ósköp vel, að þó að brtt. hans hefði náð fram að ganga við fyrri umr. málsins, var engin von til þess, að hún næði samþykki Alþingis. Ef brtt. hans hefði verið samþ. hér, gat það endað með tvennu móti. Annaðhvort að till. hefði verið felld úr hinni upphaflegu till. stj. við síðari meðferð málsins í þinginu, eða þá að ekkert hefði orðið úr skipun þessarar n. á þessu þingi. Og verð ég að líta svo á, eftir framkomu hv. 2. landsk. við áðurnefnda atkvgr., að það sé hans skoðun, að rétt hefði verið að eyðileggja málið, svo að þessi nefndarskipun hefði orðið að engu, því að hann greiddi atkv. á móti sjálfri þáltill. eftir að brtt. stjskrn. hafði verið samþ. Ég hefi ekki álitið það rétt að hafna boði stj. og Framsóknarflokksins um að íhuga þetta mál í mþn. til næsta þings, úr því að samkomulag náðist innan stjskrn. um skipun n. á sæmilegan hátt, eins og þetta liggur fyrir í till. í því formi, sem hún að lokum fékk við atkvgr. við fyrri umr. málsins.

Ég þarf ekki að gera frekari grein fyrir því, af hverju ég áleit rétt að ganga að þessari uppástungu stj., en ég þegar hefi gert við fyrri umr. þessa máls. Hv. 2. landsk. virðist ekki vera okkur þar sammála, en ég vona nú samt, að flokkur hans sé ekki orðinn svo frásnúinn málinu, að hann neiti að taka þátt í skipun n. á þann hátt, sem till. gerir ráð fyrir. Ég hefi ekki orðið var við það, að þessi hv. þm. eða flokkur hans hafi á þessu þingi viljað leggja málinu lið á annan hátt, sem hann þó hefði þurft að gera, ef hann hefði viljað veita málinu eindregið fylgi, ekki sízt þar sem hann hefir ekki getað fallizt á þessa leið um skipun mþn. í málinu. Þykist ég hafa sýnt það með atkvgr. minni engu síður en þeir aðrir sjálfstæðismenn, sem samþ. þessa till., að við höfum fullan vilja á því að hrinda þessu máli fram, þó að við viljum í lengstu lög reyna að koma því í verk á þinglegan hátt.