11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (1158)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Jónsson:

Ég get ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um leikaraskap hv. 2. landsk. í þessu máli. Hann er alltaf að dylgja um það, að einhverjir leynisamningar hafi farið fram milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins út af málinu. Þetta eru staðlausir stafir.

Ég veit ekki til þess, að nokkrir samningar hafi farið fram milli þessara flokka. Og ég hefi heldur ekki heyrt aðra halda því fram en hv. þm. og suma flokksbræður hans. Það, sem gerzt hefir á milli þessara flokka, hefir allt komið fram í dagsins ljós, og það var nú ekki annað eða meira en það, að samkomulag náðist í stjskrn. milli flokkanna um afgreiðslu þessarar till. og að sjálfstæðismenn greiddu atkv. með verðtollinum meðfram vegna þess samkomulags. Og ég get ekki fundið annað en hv. 2. landsk. ætti að geta vel við unað þá afgreiðslu, sem þetta mál þannig hefir fengið, því að sú afgreiðsla skapaði flokki hv. þm. rétt til að fá að hafa einn mann í þessari n., sem vitanlega verður til þess að greiða fyrir framgangi þessa máls með rannsókn sinni á því.

Þá var hv. þm. að tala um það, að allt hefði oltið á atkv. hv. 1. landsk. um forlög brtt. þeirrar, sem hann hafði flutt við þessa till., og sagði hv. þm. eitthvað á þá leið í því sambandi, að við framsóknarmenn myndum ekki hafa þorað að færa till. stj. aftur til síns upphaflega forms. ef till. hans hefði náð fram að ganga á annað borð. Mér kemur þetta næsta undarlega fyrir sjónir, því að ég veit ekki betur en að við framsóknarmenn höfum lýst yfir því oft og mörgum sinnum, að við viðurkennum ekki, að rétt sé að byggja eingöngu á höfðatölunni um skipun Alþingis, heldur komi þar einnig fleiri atriði til greina. Og hnútukast hv. þm. í garð hv. 1. landsk. er með öllu ástæðulaust. Hv. 1. landsk. slakaði í engu frá skoðun sinni í þessu máli í stjskrn., þó að hann hinsvegar féllist á það, að fyrstu skrefin í málinu væru stigin með því að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því í mþn., þar sem málið væri athugað frá öllum hliðum og öll gögn um það kæmu fram. Og ég met hv. 1. landsk. sem meiri mann eftir en áður, þar sem hann hefir ekki verið með neinn leikaraskap til þess að tefja fyrir framgangi málsins. En hið sama verður ekki sagt um hv. 2. landsk., því að hann hefir haft meiri leikaraskap í frammi í þessu máli en ætla mætti, að holt væri fyrir sóma hans. Og ásakanir hans í garð hv. 1. landsk. út af þessari atkvgr. eru með öllu ómaklegar, eins og ég hefi sýnt fram á. En það skiptir nú e. t. v. ekki miklu máli fyrir hv. 2. landsk.