11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (1159)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Mér þykir rétt út af ræðu hv. 1. landsk. að lýsa enn einu sinni yfir því, að ég get fallizt á stjskrbreytfrv. hans og flokksmanna hans, og er reiðubúinn til að veita því það fylgi, sem ég frekast má. En það er heldur hljótt yfir þessu frv. hér í þinginu, og skal ég ekkert um það segja, nema það kunni að vera eitt af þeim atriðum, sem leynisamningar flokkanna fela í sér, að frv. sé stungið svefnþorn á þessu þingi. A. m. k. er nál. minni hl. um það ekki komið enn.

Hv. 1. landsk. var að velta því fyrir sér, hvernig farið hefði, ef brtt. mín hefði náð fram að ganga, en ég get ekki betur séð en að hugur hans í þessu máli hafi breytzt frá því, sem var í þingbyrjun, og mér þykir sennilegt, að sú breyt. standi í sambandi við þá samninga, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gerðu með sér um afgreiðslu málsins nú, því að það þýðir ekkert fyrir hv. þm. þessara flokka að ætla sér að synja fyrir þessa samninga, því að þeir hafa sjálfir margsinnis játað það og viðurkennt í ræðum sínum, bæði hv. 1. landsk. og hæstv. forsrh., að ég nú ekki tali um hv. 3. landsk.

Þá var hv. 1. landsk. að reyna að afsaka atkvgr. sína með því, að afgreiðsla málsins með þáltill. væri svo veik, að litlu skipti, með hverjum hætti hún væri. Málið yrði ekki leyst á viðunandi hátt nema með stjskrbreyt. eða með almennri löggjöf, og skildist mér hv. þm. hallast að því, að fyrri leiðin svaraði frekar tilganginum. Er ég honum sammála um þetta. En hitt hefir líka stórkostlega þýðingu, að þegar n. er skipuð, þá fái hún sitt erindisbréf, þar sem það sé tekið fram, hvað þingið ætlist til og vilji, að n. geri. Það er þetta, sem felst í till. minni.

Ég var að segja það áðan við hv. 1. landsk., að aðstaða hans væri mun veikari nú, eftir að hann sat hjá við atkvgr. um þessa brtt. mína, heldur en hún var í byrjun þingsins. Hv. þm. sagði, — og það má vera, að hann hafi þar rétt fyrir sér —, að hefði brtt. verið samþ. hér, þá hefði hún annaðhvort verið felld í Nd. eða henni breytt þar. Það má vel vera, að þetta sé rétt, en atkvgr. um brtt. mína sýnir talsverðan veikleika í málinu hjá hv. l. landsk., sem er formaður Sjálfstæðisflokknum og verður þar af leiðandi meira tillit tekið til heldur en til óbreyttra liðsmanna. Ég get ekki skilið annað en að andstæðingar réttlátrar kjördæmaskipunar noti sér það í baráttunni gegn málinu, að flokksforinginn, hv. 1. landsk., skyldi ekki halda fastar á málinu en þetta.

Ég var ekki að beina neinum ásökunum til hv. 1. landsk., heldur var ég að spyrjast fyrir um það, hvort aðstaða hans hefði breytzt við meðferð málsins hér í hv. d. Og ég gat ekki fundið annað líklegra en að stefnubreyt. sú, sem hv. þm. virðist hafa tekið í þessu máli, hlyti að vera sprottin af samningum, sem gerðir hefðu verið um málið í þessari hv. d.

Ég held ég þurfi ekki að svara hv. 1. landsk. meiru. En er hann hafði lokið máli sínu, kom skjaldsveinn hans, hv. 3. landsk., fram á vígvöllinn og fór að verja hann af mesta ákafa, enda mun það honum skyldast, því að hann hefir sennilega teymt hv. 1. landsk. út á galeiðuna. Ég hélt nú samt, að hv. 1. landsk. væri fær um að svara fyrir sig sjálfur, en hv. 3. landsk. hefir fundið blóðið renna til skyldunnar, fundið að hann átti hér hlut að máli, og staðið þess vegna upp til þess að verja hv. 1. landsk.

Allar yfirlýsingar hv. 3. landsk. um það, að ekkert leynimakk hafi átt sér stað í sambandi við þetta mál, hljóta að falla um sjálfar sig, þar sem það hefir verið játað hér af báðum flokkum, að samningar hafi átt sér stað milli flokkanna. Það getur ekki verið rangt af mér að halda því fram, sem báðir flokkar hafa lýst yfir, að sé sannleikur. Og tvö atriði úr þessum samningum hafa þegar komið fram, nefnil. það í fyrsta lagi, að hv. sjálfstæðismenn samþ. verðtollinn, sem menn fullyrtu í upphafi þings, að þeir myndu ætla sér að fella, og í öðru lagi það, að framsóknarmenn breyttu skipun n. í kjördæmaskipunarmálinu, atriði, sem mér fannst svo lítilfjörlegt, að ég greiddi atkv. á móti því. Það er ekki þar með sagt, að Alþýðuflokkurinn ætli ekki að skipa mann í n., en mér fannst þetta svo lítilfjörleg lausn á hinum stóru kröfum um réttláta kjördæmaskipun, að ég greiddi atkv. á móti henni.

Þetta er alls ekki órannsakað mál, eins og hv. 3. landsk. vildi halda fram. Þetta mál hefir verið á dagskrá hjá þjóðinni frá því 1912, er Hannes Hafstein bar fram frv. sitt. Síðan hefir það verið mikið rætt bæði í blöðum, ritum og á mannfundum. Liggja því mörg gögn fyrir um málið, svo að ekki ætti að vera mikið verk að rannsaka það til fulls. Ef athugað er orðalagið bæði á brtt. minni og á stjskrfrv. Sjálfstæðisflokksins, þá sést, að það er ákaflega einfalt að ná takmarkinu um réttlátari kjördæmaskipun með því að gera landið að einu kjördæmi og að flokkarnir skuli fá þm.-tölu í samræmi við atkv.fjölda þeirra. Það eru full rök fyrir þessum málstað. En að láta bilbug á sér finna, það er að veikja málstaðinn. En mér hefir einmitt fundizt vera bilbugur á hv. 1. landsk., og dreg það af atkvgr. hans um málið við fyrri umr. þess. Þetta gefur mér tilefni til þess að efast um, að Sjálfstæðisflokkurinn muni halda fast við kröfur sínar um réttláta kjördæmaskipun. Það væri óneitanlega mikill hnekkir fyrir málið, ef þessi flokkur, sem mest kjósendafylgi hefir að baki sér, myndi draga sig í hlé og hætta að berjast fyrir málinu.

Hv. 3. landsk. var að tala um, að framkoma mín í þessu máli væri leikaraskapur einn. Hv. þm. er hér að tala um langalvarlegasta málið, sem fyrir hefir legið nú um langan tíma, og hann hefir þessi orð um það. Mér dettur ekki í hug að fara að væna hv. 3. landsk. um nokkurn leikaraskap í þessu máli, er hann heldur dauðahaldi í úrelt og ranglátt fyrirkomulag. Þessi skoðun hv. þm. á málinu liggur í hinu íhaldssama eðli hans, og er því eðlileg hvað hann snertir. Og hv. þm. hefir ekkert leyfi til þess að vera að ásaka aðra um leikaraskap og léttúð.

Hvað því leynimakki milli flokkanna viðvíkur, sem ég minntist á áðan, þá er það nú þegar komið í ljós um verðtollinn og skipun mþn. Það furðar auðvitað engan á því, þó að hv. 1. landsk. og hv. 3. landsk. séu ekki að koma með yfirlýsingar hér á þinginu um þessi efni. Þeir reyna vitanlega að draga sem vandlegast fjöður yfir þessa samvinnu, því að þeir þurfa að láta líta svo út fyrir kjósendunum, að fjandskapur sé á milli þeirra og þeir vegist á. En það mun máske koma í ljós við væntanlega stjórnarmyndun, hvort samningarnir og leynimakkið milli þessara flokka hefir ekki verið tíðtækara en hv. þm. vilja vera láta.