14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (1173)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Magnús Guðmundsson:

Ég vil benda á, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki tefla þessu máli í neina hættu með því að samþ. till. hv. 2. landsk. um grundvöllinn, sem nefndin skyldi starfa á. Það er auðvitað, að starf nefndarmanna verður í samræmi við sannfæringu þeirra, og hv. þm. ætti að bíða rólegur átekta, því að hann mun vissulega fá að sjá, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefir í nokkru linað á kröfum sínum. Það er rétt hjá hv. þm., að það er ekki tekið neitt fram um það í till., hvenær nefndin skuli hafa lokið störfum, en það stendur í nál. stjskrn. í Ed., og það ætti að vera jafngott og jafngilt eins og það stæði í till.