14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (1180)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Magnús Jónsson:

Það er lítið, sem ég hefi að segja. Hæstv. forsrh. fór að reikna atkvæðatölurnar og sagði, að þær sýndu ekki skýrt skoðun kjósenda í kjördæmaskipunarmálinu, en því hefir hv. samþm. minn (HV) svarað. Það er nú að athuga, að það var ekki nema örlítið af atkv., sem kommúnistar fengu. Það væri gaman að fá að vita það. hvaðan ráðh. hefir það, að kommúnistar séu ekki fylgjandi almennum kosningarrétti og því að flokkurinn hafi fulltrúa í samræmi við kjósendafjölda. Á meðan þeir eru að vinna sig upp halda þeir a. m. k. fast við fullkomið réttlæti í kjördæmaskipun, og þeir vilja áreiðanlega ekki þá kjördæmaskipun, sem nú er. Um utanflokkamennina er það að segja, að ég helmingaði atkv. þeirra enda munar það ekki svo miklu, að það geri nokkra breytingu. Þá sagði hæstv. ráðh., að einstakir frambjóðendur sjálfstæðismanna hefðu tjáð sig á móti hlutfallskosningum. Þetta mun vera rétt, að þeir hafi þetta mælt, þegar máluð var upp mynd á vegginn af hinu hræðilega Rvíkurvaldi, að þeir hafi tjáð sig á móti þeim aðferðum, en ég er viss um, að enginn sjálfstæðismaður hefir tjáð sig á móti því, að flokkarnir hefðu þm. eftir atkvæðatölu. Enn nú er það svo, að menn hafa mismunandi kosningarrétt eftir skoðunum á landsmálum. Ég er viss um, að enginn sjálfstæðismaður fylgir þeirri skoðun, að menn hafi mismunandi kosningarrétt eftir því, hvort þeir eru sjálfstæðismenn eða Alþýðuflokksmenn.

Ég þarf eiginlega engu að svara hv. 2. þm. Rang., sem heldur því fram, að það hafi ekki verið kosið um þetta mál. Það er eins og frambjóðandinn hafi verið blindur. Veit ekki hv. þm., að hæstv. forsrh. fór út um sveitir og hrópaði: „Nú eru síðustu forvöð fyrir ykkur, bændur, að halda ykkar valdi, því Reykjavík ætlar að taka af ykkur 7 þm.“. En hv. 2. þm. Rang. veit ekkert um þetta. Þvílík þrotabúsyfirlýsing! Það, sem ég heyrði frá honum í kosningunum, var, að hann gengi berserksgang móti. Rvíkurvaldinu og segði, að það ætti að stela valdinu af Rangæingum og fela það Reykvíkingum.

Hv. 3. þm. Reykv. þarf ég engu að svara. Hann vildi halda því fram, að nefndarskipunin myndi tefja málið. En það þarf alls ekki að verða. Samkomulag hefir náðst um skipun n., og er það mikils virði. (LH: Það er nú ekki orðið að lögum). Ég veit, að afturhaldið er nokkuð seigt, og það er satt, sem hv. þm. segir, að það er ekki orðið að lögum.

Ég ætla ekki að fara mikið út í atkvgr. hv. 1. landsk. í Ed. um till. hv. jafnaðarmanna þar. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hv. 1. landsk. hefði greitt þar atkv. síðast og vitað, að allt valt á hans atkv. Þetta er ekki rétt. Hv. 1. landsk. var með þeim fyrstu, sem greiddu atkv., og gat þess vegna ekki vitað fyrirfram, að sitt atkv. réði úrslitum. Ég býst við, að fyrir honum hafi vakað það, að vilja ekki stofna málinu í hættu. Hann hefir viljað tryggja það, að till. yrði samþ. eins og hún er, enda er það að 2/3 hlutum málstaður hv. jafnaðarmanna, þar sem þeir báru hana fram að 2/3. Annars ætla ég ekki að fara út í það, hverjir muni standa fastast með þessu máli þegar á reynir. Spyrjum að leikslokum, en ekki vopnaviðskiptum.