14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (1182)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð að láta í ljós undrun mína út af orðum hv. 2. þm. Skagf. Hann segir, að við framsóknarmenn höfum neitað því, að síðustu kosningar hafi snúizt um kjördæmaskipunina. Þessu höfum við aldrei neitað. Við drógum þetta eftir megni inn í kosningabaráttuna, en margir kjósendanna kusu alls ekki um það. Mikill fjöldi kjósenda vildi alls ekki kjósa á þessum grundvelli, en ég og aðrir frambjóðendur Framsóknarflokksins álitum þetta svo mikið mál, að það yrði að sitja fyrir öllu öðru. En sannleikurinn var sá, að sjálfstæðis- og jafnaðarmenn vildu alls ekki, að þetta yrði lagt til grundvallar fyrir kosningunum. Hv. 2. þm. Skagf. talaði um það eins og eitthvert nýmæli, að Framsókn vildi láta fara fram endurskoðun á kjördæmaskipuninni. Auðvitað er þessi þáltill. fram komin vegna þess, að Framsóknarflokkurinn vill láta endurskoða þá löggjöf, sem lýtur að þessu. Á þinginu í vetur voru það einmitt hinir flokkarnir, sem ekki vildu játa endurskoða þessa löggjöf. Þeir vildu hraða þessu máli svo af, að enginn tími hefði orðið til endurskoðunar og rólegrar yfirvegunar. Hv. þm. sagðist hafa lýst því yfir norður í Skagafirði, að hann áliti, að grundvöllurinn undir kjördæmaskipuninni ætti að vera sá, að höfðatalan réði. Ég ætla bara að minna hv. þm. á það, að þar sagði hann ennfremur, að hann mundi ekki stuðla að því, að pólitískt vald yrði dregið úr höndum bænda, og það var einmitt sú yfirlýsing, sem átti að koma við hjörtun í skagfirzku bændunum. Mér finnst, að hv. þm. geti varla staðið sig við að afneita þessu, því að á því flaut hann inn í þingið, en með sáralitlum atkvæðamun þó.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að hv. 3. og 4. þm. Reykv. út af afstöðu kommúnista til þessara mála. Hv. 4. þm. Reykv. spurði mig, hvaðan ég hefði það, að þeir vildu ekki hafa jafnan kosningarrétt. Ég get svarað því fljótlega: Úr þeirra eigin herbúðum. Þar, sem þeir hafa völdin, í Rússlandi, er kosningarréttur ranglátastur í heiminum, því að þeir einir fá að kjósa, sem fylgja flokki kommúnistanna. (MJ: En hvaða stefnu hafa þeir í öðrum löndum í þessu máli?). Það varðar okkur ekkert um; við sjáum, hvernig þeir hafa það í Rússlandi, og það er okkur nóg. Þótt þeir kunni að tala öðruvísi hér á landi, þá kemur okkur það ekki við. Það er mest að marka, hvernig þeir hafa það þar, sem þeir ráða sjálfir.