14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (1183)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 4, þm. Reykv. hefir haldið því sterklega fram í þessum umr., að kosið hafi verið í vor eingöngu um kjördæmaskipunina. Frambjóðendur Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins margir héldu því fram í kosningabaráttunni, að alls ekki væri um þetta mál kosið. Aftur á móti héldu framsóknarmenn því sterklega fram, að kosningarnar í vor snerust um þetta mál fyrst og fremst. Ég álít því, að kjósendur andstöðuflokka Framsóknar hafi tekið frambjóðendur þeirra trúanlega og ekki kosið um kjördæmaskipunina, en aftur á móti hafa kjósendur framsóknarmanna kosið um hana, af því að þeir hafa einnig tekið sína frambjóðendur trúanlega. Ef þetta er rétt, þá hafa allir framsóknarkjósendur á landinu greitt atkv. gegn breyt. á kjördæmaskipuninni. Aftur á móti sýnir atkvæðatala andstöðuflokkanna ekkert í því efni, því að þeir hafa alls ekki greitt atkv. á sama grundvelli. Það má því búast við, að meðal þeirra sé fjöldi fólks, sem fylgir framsóknarmönnum í þessu máli.