14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (1186)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Bergur Jónsson:

Ég ætla að segja fáein orð út af þeim fullyrðingum, sem komið hafa fram í þessum umr. í sambandi við síðustu kosningar. Ég ætla að benda hv. þm. á, að bæði frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Barðastrandarsýslu og formaður þess flokks, sem einnig mætti þar á fundum, lýstu því yfir hvað eftir annað, að ekki ætti að leggja kjördæmaskipunarmálið til grundvallar fyrir kosningunum. Það var greinilegt, að þeir kærðu sig ekki um, að kjósendur legðu þetta mál til grundvallar og kysu eftir því. Þetta gekk svo langt, að sumir foringjar andstöðuflokka Framsóknarflokksins hafa neitað því, að þeir ætluðu að breyta kjördæmaskipuninni nokkuð verulega, þó að kosningarnar snérust þeim í vil. En ég hefi fullkomnar sannanir fyrir því, að náðst hafði samkomulag milli andstöðuflokka Framsóknar um breytingu, og meira að segja, hvernig þessari breyt. skyldi hagað. Ég hirði ekki um að leggja þessi sönnunargöng á borðið nú, en það er einn hv. þm. hér í þessari hv. d., sem gæti gefið mér tilefni til þess. Hitt er annað mál, að svo virðist sem sumir þm. Sjálfstæðisflokksins hafi ekki fengið að vita allt um það samkomulag. Eins og málið liggur fyrir nú er verið að leita svars við þeirri spurningu, á hvern hátt eigi að breyta kjördæmaskipuninni. En allir flokkar eru orðnir sammála um nauðsyn nokkurra breytinga á þessu sviði. Hæstv. forsrh. hefir t. d. sagt í blaðagrein núna fyrir kosningarnar í vor, að hann álíti sjálfsagt, að kjördæmaskipuninni sé breytt í réttlátara horf en nú er. (MG: Það var ekki yfirlýsing fyrir hönd flokksins). Nei, að vísu ekki. En nærri má geta, hvernig við smærri spámennirnir erum í þessum efnum, þegar hæstv. forsrh. lætur svona greinilegan vilja í ljós, því um hann hefir því verið haldið fram, bæði hér í umræðunum og annarsstaðar, að hann sé manna harðsnúnastur gegn breytingum á kjördæmaskipuninni.

Ég get einnig bent á það til upplýsingar fyrir hv. 3. þm. Reykv., að frambjóðandi jafnaðarmanna í Barðastrandarsýslu sagði á síðasta fundi, sem við áttum saman, að skynsamlegasta leiðin í kjördæmaskipunarmálinu væri í raun og veru einmenningskjördæmi með uppbótarsætum. Sömu skoðun hafði ég látið í ljós á öllum fundunum. Allir þeir, sem veittu Framsóknarfl. atkv., mega teljast hafa lýst því yfir, að þeir vildu ekki láta fella niður gömlu kjördæmin í einni svipan, ekki steypa þeim saman í eitt kjördæmi eða nokkur stór.

Það er óþarfi að hafa langar umr. um þetta mál á þessu stigi. Allir flokkar hafa gengið inn á að reyna að leita að heppilegri lausn á málinu. En ég býst við, að ég muni hvorki telja mér rétt né skylt að ganga inn á svo gagngerða breyt. á kjördæmaskipuninni, að gömlu kjördæmin verði lögð niður. Hitt er það, að ég vil bæta úr misrétti, sem á þessu er, en eins og það er sjálfsagt, þá er jafnfráleitt að binda úrslit kosninganna eingöngu við það, að allir kjósendur hafi jöfn áhrif á skipun Alþingis, miðað eingöngu við höfðatölu, því það er ýmislegt annað, sem á að koma til greina. Ég get bent sjálfstæðismönnum á að athuga vel ræðu foringja síns, hv. 1. landsk., 1930, þegar till. lágu fyrir frá jafnaðarmönnum viðvíkjandi kjördæmaskipuninni, þar sem hann kallar það hina ,,einstrengingslegustu skoðun“ að miða eingöngu við það, að kjördæmaskipunin skuli tryggja öllum kjósendum jafnan rétt, miðað við höfðatölu.