14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1188)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Sveinbjörn Högnason:

Hv. samþm. minn skýrði í raun og veru að mestu leyti rétt frá, eins og hans var von. Hann sagði, að þetta mál hefði legið illa fyrir og menn hafi ekki botnað í því, hvorki upp né niður. Þetta er alveg rétt hjá honum. Þannig reyndu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að reifa það við kosningarnar. Hinsvegar fer hann ekki með rétt mál, þegar hann er að reyna að gera sér mat úr því, að utanflokkaframbjóðandinn hafi lýst sig með breyt. á kjördæmaskipuninni í þá átt, sem Reykvíkingar töluðu um. Hann lýsti því alstaðar ákveðið yfir á fundum, að hann stæði í raun og veru með Framsókn í þessu máli. Og svo mun hafa verið með hina utanflokkaframbjóðendurna. En hvað því viðvíkur, sem hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, að sjálfstæðismenn yrðu illa úti í sveitum undir núverandi kosningafyrirkomulagi, þá kom það Rangæingum hlægilega fyrir, þar sem framsóknarmenn í sýslunni, sem eru ekki svo fáir, hafa sjaldnast átt nokkurn fulltrúa á þingi, en sjálfstæðismenn oftast 1 og mjög oft 2. Hv. 4. þm. Reykv. bauð mér að útlista þetta fyrir mig í 2–3 tíma. En ég er sannfærður um, að það myndi aðeins verða til þess eins, að ég myndi betur skilja, hve villur vegar hann fer í þessu. Sú hefir a. m. k. orðið raun á, er hann í blöðum og tímariti sínu talar í einrúmi við lesendur um málstað íhaldsins. — Þá hefir það aðeins orðið til þess að gera þá vissari í því, að höfundurinn væri að verja rangan málstað.