14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (1192)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Einar Arnórsson:

Hv. 3. þm. Reykv. heldur því fram, að till. mundi gera það eitt að tefja fyrir málinu. Nú er tvísýnt, hvort unnt sé að breyta kjördæmaskipun og kosningareglum svo, að til fulls réttlætis dragi, nema stjórnarskránni sé breytt. En þá er aftur einsætt, að nefndarskipun og nefndarstörf geta ekki tafið málið, ef nefndin lýkur störfum fyrir næsta reglulegt þing. Meiri hl. þings þykir málið nú vafalaust eigi nægilega undirbúið til þess að hann vildi nú samþykkja stjórnarskrárbreytingu um nýja skipun á kjördæmum og kosningareglum. Þess yrði fyrst, frá sjónarmiði meiri hl., kostur á næsta þingi, ef nefndin hefði þá lokið störfum. Nefndarskipunin er því sízt til að tefja málið. Það er miklu fremur svo, að eigi eru sem stendur vonir til þess, að lögun komist á þessi mál með friðsamlegum hætti, nema nefnd sé í það skipuð.

Forvígismenn stjórnarflokksins hafa barið því við, að kjördæmaskipunarmálið væri eigi rannsakað sem þyrfti, og að hentasta ráðið væri að setja nefnd milli þinga til rannsóknar á því. Þótt ég telji nú ekki slíkrar rannsóknar þörf, því að málið sé svo einfalt, þá virðist ekki vera rétt að spyrna á móti því, að meiri hl. fái vilja sinn að þessu leyti. Fyrr mun þess varla að vænta, að hann gangi að breytingum, sem nokkurs virði væru. Hitt er náttúrlega allt annað mál, hvort væntanlegir nefndarmenn geti komið sér saman um tillögur í málinu. Má vera, að nefndarmenn skiptist í 2 eða fleiri flokka. Um það skal ég engu spá. Tíminn sýnir það.

Deilur um það, um hvað hafi verið kosið í vor, eru náttúrlega afarófrjósamar. Hér er verið að byggja á hugsanlegri rannsókn á hjörtum og nýrum kjósendanna, en okkur brestur auðvitað gögn til þess að segja, hvað hafi verið ráðandi um atkv. hvers einstaks kjósanda. Það getur verið, að einn hafi kosið sjálfstæðismann með það fyrir augum, að hann vildi ekki breyta kjördæmaskipuninni. En það getur líka verið, og er mjög sennilegt, að einhver hafi kosið framsóknarmann og þó viljað breyta. Ég er ekki að óreyndu trúaður á, að í Framsóknarflokknum séu yfirleitt ranglátari menn en fólk er flest, í þeim flokki munu vera góðir menn og vondir, réttlátir og ranglátir, eins og gengur og gerist. Ég býst því við, að margir framsóknarmenn sjái og kannist við það, að sú kjördæmaskipun, sem nú er, sé ekki réttlát, eins og líka hefir komið fram í ræðum nokkurra framsóknarmanna hér.

Svo framarlega sem þetta mál á að leysast réttlátlega á friðsamlegum grundvelli, sé ég ekki, hvaða leið er hægt að fara aðra en þá, sem hér er verið að taka upp.

Ég held, að það hljóti að vera misskilningur hjá hæstv. forsrh., að það hafi verið tilætlun andstöðuflokka stj. í vetur að ráða máli þessu til lykta í hvelli, því að það var ekki hægt eftir stjórnarskránni. Samkv. henni þarf stjórnarskrárbreyt. til þess að hægt sé að koma við hlutfallskosningum, og e. t. v. til þess að hægt sé að hafa einmenningskjördæmi og uppbótarsæti. Ég held því, að réttlát kjördæmaskipun og réttlátur atkvæðaútreikningur muni varla þykja framkvæmanlegur, nema stjskr.breyt. fari fram á undan.

Út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. vil ég segja það, að ég er mjög ánægður yfir því að heyra staðfestingu á því hjá honum, að það sé réttlætiskrafa, að kosningaaðferð og því, sem þar til heyrir, verði breytt. Það er ekki út af fyrir sig endilega nauðsynlegt, að kjördæmaskipuninni sé breytt til þess að komast að réttlátri niðurstöðu. En ég held, að ótti hans um, að yrði stjskrbreyt. sú, sem sjálfstæðismenn báru fram í Ed., samþ., þá gæti það auðveldlega leitt til stjórnarskrárbrots, sé ekki réttur. Því mér skilst, að ef þingið á annað borð hefir komið sér saman um einhverja ákveðna meginstefnu um að tala þingmanna skuli vera í samræmi við atkvæðatölu kjósenda flokkanna, þá hlyti það sama þing líka um leið að koma sér saman um, hvaða fyrirkomulag skyldi hafa á kjördæmaskipun, kosningatilhögun og atkvæðaútreikningi. Það er því ekki vel hugsanlegt, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn kæmu sér saman um slíka almenna reglu án þess að koma sér líka saman um það, sem af henni leiðir. Það liggur í hlutarins eðli, að þing, sem samþ. slíka stjskr.breyt. til fullnaðar, hlyti að undirbúa ný kosningalög og ganga frá þeim.

Annars er ekki mikil ástæða til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að þessi till. verði samþ. Það hefir ekki verið stungið upp á nefnd í málið, og tel ég ekki heldur neina þörf á því.