14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (1194)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Einar Arnórsson:

Það er rétt hjá hv. l. þm. Eyf., að þetta er hugsanlegt, en það er áreiðanlega mjög ósennilegt, að það kæmi fyrir; því að ég get ekki vel gengið út frá því, að t. d. Framsóknarflokkurinn, sem getur komið fram hvaða máli sem hann vill í Nd. og getur stöðvað hvert mál í Ed., myndi samþykkja nokkra nýja meginreglu í stjskr. án þess um leið að tryggja sér samkomulag um það skipulag, er ætti að gilda um kjördæmaskipun, kosningaaðferð, talningu atkvæða og útreikning. Það þarf enginn að segja mér, að meiri hl. þings sé skipaður þeim börnum, að hann mundi samþykkja slíka meginreglu án þess jafnframt að tryggja sér, að hún geti orðið framkvæmd. Ef ekki væri samkomulag um það, yrði þessi meginregla aðeins dauður bókstafur.