14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (1195)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Héðinn Valdimarsson:

Ég sé ekki, að það séu nein líkindi til þess að fá samkomulag um þetta. Það hefir ekkert komið fram, sem getur bent á, að hæstv. forsrh. né aðrir í þeim flokki hafi látið af þeirri skoðun, sem haldið var fram af Framsóknarflokknum á kosningafundunum. Nú hafa kosningarnar farið þannig, að Framsóknarflokkurinn hefir vegna hinnar ranglátu kjördæmaskipunar fengið meiri hl. þm., en ekki nægilegan þingmeirihl. til þess að koma fram neinu máli, né til þess að afla sér fjár eða fá fjárlög samþ. Ef verður áfram svipað hugarástand hjá Framsóknarflokknum eins og við síðustu kosningar, hlýtur að koma barátta um það, hvort þessi flokkur getur haldið völdum í landinu á þessari röngu kjördæmaskipun, og andstöðuflokkarnir mundu þá neita honum alls fjár, svo að hann gæti ekki stjórnað á löglegan hátt.

Það, sem þessi nefndarskipun gerir, er ekkert annað en að tefja málið. Stjórnarflokkurinn hefði eins getað áttað sig á þessu máli nú eins og á næsta þingi og ákveðið, hvort hann vildi breyta kjördæmaskipuninni, þótt það rýrði tölu þm. hans, eða leggja út í að reyna á ólöglegan hátt að stjórna landinu.

En það er annað unnið með þessari nefndarskipun. Þær kosningar, sem óhjákvæmilega hlytu fram að fara, ef Framsóknarflokkurinn héldi áfram í villu sinni, yrðu að vorinu, þegar verkafólk á mjög óhægt með að kjósa. Þetta er því með ráði gert af báðum íhöldum, til þess að verkamenn hafi sem minnstan íhlutunarrétt í kosningunum.