25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (1203)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Jóhann Jósefsson:

Á Alþingi 1925 var samþ. að kjósa n. til að rannsaka hinn sögulega rétt Íslendinga til Grænlands. Í þessa n. voru kosnir þáv. þm. N.-Þ., núv. 4. þm. Reykv. og núv. forsrh. Það hlýtur að skipta miklu máli, hvernig viðhorfið er með hinn sögulega rétt, sem margir af hinum þjóðhollustu Íslendingum halda fram, að sé mikill. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa upp fáein orð úr framsöguræðu þáv. þm. N.-Þ., sem talaði fyrir málinu. Hann minntist fyrst á það, að Alþ. hafi sett þriggja manna n. til að rannsaka málið, og síðar, að n. hafi átt lítt kost á tækjum til rannsóknar og starfið verið torsóttara fyrir þá sök, að n. hafi ekki verið opinberlega skipuð.

Frsm. farast svo orð í ræðu sinni: „Nefndinni hefir verið nokkuð örðugt um aðdrætti nauðsynlegra rita og upplýsinga, því þeirra er lítt kostur hér í landinu. Hefir starfið orðið miklu torsóttara fyrir þá sök, að n. var ekki opinberlega skipuð“.

Því var það, að farið var fram á það 1925, að n. væri opinherlega skipuð. Frsm. segir ennfremur:

„Ég hefi þegar drepið á verksvið nefndarinnar. Það er í stuttu máli, eins og till. greinir, að rannsaka alla réttarstöðu Grænlands að fornu og nýju að því er Ísland varðar — eða bæði „fornstöðu“ og „nýstöðu“ landsins í sambandi við ríkjandi réttarhugmyndir nútímans“.

Nú hefir það komið fram í ræðu hv. flm. till., er liggur hér fyrir, að þessar réttarhugmyndir nútímans geti að því er virðist veitt Íslandi rétt til tilkalls á Grænlandi, fram yfir þann sögulega rétt, sem við eigum. En þetta var ekki eins ljóst á þingi 1925, að réttarhugmyndir nútímans styddu réttarkröfur Íslendinga til Grænlands. En áður héldu menn, að okkar eini réttur væri hinn sögulegi.

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem skipar sæti í n.: Hvað hefir verið gert síðan Grænlandsnefndin var skipuð, til að rannsaka réttaraðstöðu Íslands til Grænlands? Hvað hefir verið gert til að afla gagna til rannsóknarinnar, hvaða rannsókn hefir fram farið og hver hefir orðið niðurstaðan af þeirri rannsókn?

Það er vitanlegt, að þetta mál hefir átt tök í hugum mikils þorra þjóðarinnar, þó að því hafi verið haldið minna á lofti opinberlega en það ætti skilið. En nú er tækifæri til að rifja upp þetta mál og koma fram með fyrirspurnir, þegar það hefir verið lagt upp í hendur þm. og þingið verið vakið til umhugsunar um það að nýju. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. sjái sér fært að gefa Alþ. upplýsingar um rannsóknina, sem nefndin átti að leysa af hendi.