25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (1205)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Vestm. beindi til mín fyrirspurnum viðvíkjandi nefnd þeirri, sem á sínum tíma var kosin í Grænlandsmálinu. Eins og hv. þm. gat um, á formaður nefndarinnar ekki lengur sæti á Alþ. En ég og hv. 4. þm. Reykv. eigum enn sæti á þingi, og ég get orðið við ósk hv. þm. Vestm. um að svara að mínu leyti.

Grænlandsnefndin lagði nokkra vinnu í það að draga að bækur og rit í þessu skyni, og Alþ. gerði sérstakar ráðstafanir, þegar það keypti sérbókasafn Einars Benediktssonar. Safninu var komið fyrir uppi í Landsbókasafni. Það hefir því verið dregið að mikið efni, sem síðar er hægt að vinna úr. En hinsvegar leit ég svo á, og hygg, að hv. 4. þm. Reykv. hafi gert það líka, að þegar kosin var sérstök utanríkismálanefnd, þá væri þetta mál komið í hennar hendur.