25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (1206)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir úrlausnir hans viðvíkjandi fyrirspurnum mínum. — Ég skal geta þess, að ég er ekki eins sannfærður um gagnsleysi hins sögulega réttar og hv. 3. þm. Reykv. Af svari hæstv. forsrh. þykist ég mega ráða, að Grænlandsnefndin, sem átti að athuga hinn sögulega rétt og ennfremur þá aðstöðu til Grænlands, sem nútíminn skapar okkur, hafi ekki innt af höndum það verkefni sitt nema að litlu leyti. Hæstv. forsrh. gat um, að nefndin hefði aflað sér bókmennta um þetta efni, en það fylgdi ekki með, hvort nokkuð hefði verið unnið úr þeim plöggum. Það virðist nú ekki unnt á þessu stigi málsins að leggja frekara verkefni fyrir hina gömlu Grænlandsnefnd, sem búin er að því er virðist að starfa með neikvæðum árangri í síðastliðin 5 ár. En ég vil leggja áherzlu á það, ef svo er, að utanríkismálanefnd á að taka málið til meðferðar, að hún snúi sér þá að því af fullri alvöru. Ég hefi aldrei heyrt getið um, að utanríkismálanefnd hafi skipt sér af Grænlandsmálum, enda mun hún ekki hafa talið sér það skylt, þar sem til var sérstök Grænlandsnefnd.

Ég mun greiða atkv. með till. þeirri, sem borin er fram af hv. 1. landsk., með það fyrir augum, að stjórnin gæti hagsmuna Íslands í þessu máli síðar. Að endingu vil ég leggja áherzlu á það, að ekki verði vanrækt að rannsaka hinn sögulega rétt Íslendinga til Grænlands.