25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (1209)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég hafði hugsað mér meðferð málsins á þann hátt, að Alþ. samþ. þessa till., en stj. tæki síðan málið til meðferðar með aðstoð utanríkismálanefndar. Taldi ég það bezt viðeigandi og hreinlegast, af því að ég hélt, að það orkaði ekki tvímælis, að okkur bæri að framkvæma það, sem till. fer fram á. Hinsvegar vil ég ekki setja mig á móti till. hæstv. forsrh. að vísa málinu til utanríkismálanefndar á þessu stigi, ef hæstv. ráðh. vill lofa því, að þetta mál fái aftur að koma á dagskrá, áður en þm. verða sendir heim. — En þetta verður að vera alveg hreint. Annars get ég ekki fallizt á það, að umr. sé frestað.

Út af umr. vil ég fyrst minnast á tvö atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Hann sagðist ekki vilja byggja neinn rétt á ákvæðum sambandslaganna. Þessi orð hans mætti skilja á þann veg, að ég hefði í flutningsræðu minni byggt eitthvað á þeim. En svo var ekki. Ég tók það eitt fram, að ég vissi ekki til, að við hefðum samið af okkur neinn rétt, sem við hefðum haft til 1918. Ég byggði ekki neinn rétt á lögunum, en tók það eitt fram, að með þeim hefði engu verið glatað.

Þá fór hann nokkrum orðum um stjórn Dana á landinu og sagði, að þeir héldu því í heljargreipum og lokuðu því fyrir öðrum þjóðum. Þetta atriði er málinu óviðkomandi eins og það liggur hér fyrir til umr., en hinsvegar vil ég benda á, að það stríðir ekkert á móti hagsmunum okkar Íslendinga, þótt Danir þannig hindri annara þjóða menn í því að hagnýta sér landið. Því að þótt við séum ekki viðbúnir að færa okkur gæði landsins í nyt, þá er okkur hagur að því, að það sé geymt ónotað, þar til við erum þess umkomnir að hagnýta okkur auðæfi þess. Ef þetta samrýmist hagsmunum grænlenzku þjóðarinnar, þá er ekkert við það að athuga frá almennu siðferðislegu sjónarmiði. Það er alls ekki rétt af okkur að fara að halda því fram og gerast fyrirsvarsmenn þess, að Bretar og aðrar stórþjóðir færu að fá rétt til að notfæra sér auðæfi landsins.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði lítið úr því, að við ættum hér hagsmuna að gæta, en vildi þó ekki vera á móti till., sem fyrir liggur. Hann hélt því fram — og það nær einnig til hv. 2. þm. Reykv. —, að ekki myndi vera um mikinn sögulegan rétt að ræða til Grænlands. Þeir mega gæta sín, að ekki verði lagt meira í orð þeirra en þeir sjálfir munu gera. Sögulegur réttur er hver sá réttur, sem við höfum eignazt til 1918. En þegar þeir mæla gegn sögulegum rétti, þá eiga þeir máske ekki við annað en það, að ekki sé hægt að byggja kröfur til landsins á því, að það byggðist í fornöld héðan frá Íslandi. En æskilegt væri, að þeir á þessu stigi málsins höguðu orðum sínum svo, að málflutningsmenn andstæðinganna fái ekki meira út úr orðum þeirra en þeir sjálfir ætlast til.

Þá gerði hv. 3. þm. Reykv. lítið úr því, að við hefðum sótt nytjar þangað, og notaði tækifærið til að hnýta í útgerðarmenn. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að svo fámennir sem við erum, höfum við gnægð heimakosta og því ekki ástæða til að leita bjarga langt í burtu. Eru útgerðarmenn því ekki ámælisverðir, þótt þeir noti gæðin heima fyrir heldur en að fara að sækja langt. En eins og ég hefi áður tekið fram, þá er engin sönnun þess, að síðar komi ekki þeir tímar, að Íslendingum væri það mikils virði að eiga rétt til atvinnufyrirtækja á Grænlandi.

Þá færði sami þm. það fram, að bæði Danir og Norðmenn hefðu gert ýmislegt á Grænlandi, sem gæfi þeim þar rétt til yfirráða, en við ekki. Þetta skal fúslega viðurkennt, einkum að því er Dönum viðkemur. Danir hafa stjórnað nýlendunum að austan og vestan í sambandi við okkur og hafa látið þar margt eftir sig liggja. En út af kröfum Norðmanna til Norðaustur-Grænlands, sem styðjast eiga við atvinnurekstur norskra manna, þá er ég ekki svo kunnur þeim málum, að ég þori alveg að bera brigður á það, að þeir hafi eitthvað gert í þá átt, að það gæti heitið landnám. En flest af því, sem þeir hafa gert, er þess eðlis, að íslenzkur hugsunarháttur getur ekki viðurkennt, að sú starfsemi gefi þeim neinn rétt til landsins. Starf þeirra hefir að mestu verið í því fólgið að leggja dýr að velli. En íslenzkur hugsunarháttur á þessu sviði er annar en suðlægari þjóða, og hefir hann mótast af lífskjörunum í norðurhöfum. Við friðum hiklaust rándýr og ránfugla, ef við sjáum hættu á því, að þær dýra- eða fuglategundir líði undir lok. Í norðurhöfum hafa dýrin svo harða baráttu að heyja fyrir lífi sínu, að þegar veiðigrimmd mannanna kemur til viðbótar öðru því, sem þau hafa við að stríða, þá verður hætta á því, að vissar dýrategundir geti með öllu dáið út. Eftir íslenzkum hugsunarhætti getur ekki neinn réttur fengizt til landnáms með veiðiskap einum, með því að útrýma dýrum og gera dýralífið fáskrúðugra. Ég hygg því, að fullyrða megi, að megnið af því, sem Norðmenn hafa gert á Norðaustur-Grænlandi, sé þess eðlis, að eftir íslenzkum hugsunarhætti veiti það ekki neinn rétt til yfirráða yfir landinu.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv.till. bæri það ekki með sér, á hvern hátt haga ætti gæzlu íslenzkra hagsmuna út af Grænlandsmálum. Það var með vilja gert að hafa ekkert um það í till., því að ég vildi, að stj. hefði sem frjálsastar hendur um það, hvernig hún sneri sér í málinu. En ég hefi helzt hugsað mér framkvæmdina á þá leið, að Ísland á sínum tíma mætti sem sjálfstæður aðili á dómþinginu í Haag, eða hvar annarstaðar, sem alþjóðadómþing væru háð um réttindi til Grænlands, og léti vita, að það teldi sig aðila, og kæmi óskum sínum og kröfum þar á framfæri með þeim hætti, sem réttarfarsreglur dómstólsins leyfa.

Ég hefi tekið það fram út af ummælum hv. 2. þm. Reykv., að hann hefir ekki hagað orðum sínum nægilega gætilega, þegar hann lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að Íslendingar ættu engan sögulegan rétt til landsins. Ég hygg, að með sögulegum rétti hafi hann þar átt eingöngu við rétt þann, sem hægt væri að byggja á landnáminu í fornöld. En ég vona, að hinu hafi hann ekki viljað halda fram, að Íslendingar hafi ekki sem sambandsþjóð Norðmanna og Dana haft rétt til umráða yfir landinu ásamt þeim, né heldur að í því sambandi hafi Ísland verið þeim mun réttindaminna en sambandsríkin, að við skilnaðinn hafi ekkert átt eftir að verða handa Íslendingum, heldur öll réttindi fallið í hendur hinum sambandsþjóðunum.