25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (1210)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Einar Arnórsson:

Ég ætlaði aðeins að gera nokkrar aths. út af ræðu hv. flm.

Um sögulegan rétt okkar til Grænlands má tala frá þrennskonar sjónarmiðum. Í fyrsta lagi er um það að ræða, hvort hægt sé að byggja rétt til landsins á landnáminu. Það var það atriðið, sem ég talaði um og álít, að hæpið muni að byggja rétt á því. Hv. flm. lýsti óánægju sinni yfir því og taldi það hættulegt málstað okkar, að ég lét þessa skoðun uppi. En ég lít svo á, að þegar meta skuli mál sem þetta, þá verði að líta á allt, sem máli skiptir, hvort sem það mælir með eða móti. Eins fer ég að, ef einhver leitar til mín ráða, þá leita ég þess vandlega, hvað með er og hvað á móti, svo að ekki sé farið út í neitt, sem hljóti að tapast. Ég sé ekki, að það geti horft til nokkurra réttarspjalla, þótt ég og aðrir lýsi skoðunum, sem áður hafa birzt á prenti í víðlesnu tímariti og allir hafa því átt kost á að sjá og forsvarsmenn andstöðuþjóðarinnar vitanlega þekkja. Ég vísa því á bug ummælum hv. flm. um það, að ég hafi sagt meira en það, sem rétt var að segja.

Annað atriðið er það, að við ættum rétt til Grænlands sökum fyrra sambands okkar við Danmörku. Mætti e. t. v. byggja á sambandi Íslands við Danmörku, og að Grænland væri því, að því leyti sem Danmörk telur sér landið, sameign þessara tveggja landa. Um þetta atriði hefi ég ekkert sagt og ætla eigi að gera það nú.

En þá er þriðji möguleikinn, sá, að réttur Íslands til Grænlands, eða hluta af því, sé byggður á legu landa þessara, að Íslandi yrði viðurkenndur réttur til Norður-Íshafslanda innan geira þess, er norður af landinu liggur, og til Norðurskauts. Þessi hugmynd virðist ekki óálitleg, enda þótt hún muni ekki enn hafa hlotið viðurkenningu sem þjóðréttarregla.

Athugað hefir verið, að ekki standi í till., hvernig með mál þetta skuli farið. Ég er algerlega sammála hv. flm. um það, að alls ekki sé fært að setja í till. ákvæði um þetta. Fyrirskipanir um það efni verða ekki settar hér. Það ætti eigi við og eigi heldur kominn tími til þess nú, að tiltaka, hvaða kröfur gera, skyldi eða yfir höfuð, hvaða meðferð skuli hafa á málinu. Utanríkismálanefnd og þeir aðrir, er stjórnin kynni að ráðfæra sig við um málið, verða með stjórninni að ráða því til lykta. Og ef málið verður borið undir dóminn í Haag af hálfu Íslands, þá fer það þar eftir dómskapareglum hans.