25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (1211)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Pétur Ottesen:

Hv. 1. landsk. hefir bent á, hversu sérstaklega óheppilegt það sé, þegar íslenzkir lögfræðingar fara að véfengja ríkjandi skoðanir þjóðarinnar á sögulegum rétti okkar til Grænlands. Um langt skeið var samband Íslands og Grænlands svo náið, að bæði í íslenzkum og erlendum tímaritum, sem fjalla um þetta tímabil, er Grænland kallað íslenzk nýlenda, og má af því marka, hvernig bæði innlendir og útlendir fræðimenn hafa litið á samband landanna.

Ég skil ekki, hvers virði sögulegur réttur er, ef það hefir ekki afgerandi þýðingu í þessu tilliti, að Grænland byggist frá Íslandi og byggðin þar þróast í skjóli íslenzkrar löggjafar og íslenzkra hátta. Það breytir engu, þó að síðar komi önnur tímabil og þessi menning deyi að mestu út og ýmsir viðburðir verði, sem trufla framþróun þessara frumbyggja Grænlands. Ég get ekki komið auga á, að aðrar þjóðir hafi meiri rétt til Grænlands en við. Og ég held því fram, að ritgerð sú eftir Ólaf prófessor Lárusson, er hv. 2. þm. Reykv. var að vitna í, sé vægast sagt mjög óheppileg. Mér virtist hv. þm. vilja afsaka afstöðu sína í þessu máli með þessum tilvitnunum, en þessi ritgerð er byggð á fullkomnum misskilningi á því, hvað sögulegur réttur er. Sumir vildu nú e. t. v. segja, að með sama rétti gætu Norðmenn helgað sér Ísland. En slíkt kemur ekki til mála, þó ekki væri af öðru en því, að Norðmenn hafa viðurkennt sjálfstæði Íslands. Þegar úr því skal skorið, hvaða þjóð hafi frekastan rétt til lands, þá verður að taka rækilega tillit til þess, hvaða þjóðir eigi við líkust skilyrði að búa og séu líklegastar til þess að geta hagnýtt sér þau náttúrugæði landsins, sem fyrir hendi eru, — og sé það svo lagt á metaskálarnar með hinum sögulega rétti. Þetta yrði vafalaust þungt á metunum.

Sú reynsla, sem fyrir hendi er viðvíkjandi Grænlandi, er á þá leið, að Danir hafa sýnt sig ófæra til þessa, sem hér er áður getið, og að Íslendingar eru eina þjóðin, sem líkleg væri til þess að notfæra sér gæði gróðurmoldar Grænlands, og einnig auðæfi sjávarins við strendur þess.

Það er ekkert undarlegt, þó að Íslendingar hafi ekki gengið á undan öðrum þjóðum með fiskveiðar við Grænlandsstrendur. Þeir hafa sjálfir búið við ein auðugustu fiskimið heimsins, og samkv. nýjustu fiskirannsóknum eru fiskigöngurnar við Grænland aðeins örlítill hluti af þeim íslenzka fiskistofni, sem elst upp hér við land og á upptök sín að rekja til hinna miklu hrygningarstöðva á Selvogsbanka.

Ég held því fram, að til sé bæði sögulegur og eðlilegur yfirráðaréttur Íslendinga yfir Grænlandi. Íslendingar hafa bezt skilyrði til þess að hagnýta sér auðæfi landsins, og ætla ég, að það verði drjúgt á metaskálunum. Mér virtist hv. l. landsk. hneykslast á þeim orðum, sem ég lét falla um það, hvernig Danir hefðu farið með stjórn Grænlands.

Um það atriði, að Danir haldi Grænlandi lokuðu af umhyggju fyrir Íslendingum, er eins og annarstaðar sannleikurinn sagna beztur. Og þarna er sannleikurinn sá, að það er af tómri þröngsýni og engu öðru, að slíkt stjórnarfar er viðhaft þar. Það er mín skoðun, ef Íslendingar vilja halda fram kröfum til nokkurs réttar í Grænlandi — og það ber þeim að gera —, þá sé það hættulegt að sleppa þessu tækifæri. Ef við létum þessa deilu algerlega afskiptalausa, mundi þykja óeðlilegt, að við færum síðar að blanda okkur inn í þessi mál.

Það mun sannast, að Dönum helzt ekki til lengdar uppi með þessa innilokunarstefnu á Grænlandi. Ef þeir ætla sér að halda henni áfram til lengdar, þá er það óhjákvæmileg afleiðing, að aðrar þjóðir fari að seilast þar til yfirráða. — Og sú mun verða raun á, að erfiðara yrði okkur það, Íslendingum, að reka réttar okkar þar, þegar t. d. Englendingar eða Bandaríkjamenn væru búnir að slá eign sinni á landið. (EA: Báðar þessar þjóðir hafa viðurkennt yfirráð Dana á Grænlandi). Þó svo sé, þá má ganga út frá því sem gefnu, að til beggja vona geti brugðið með haldgæði þeirrar viðurkenningar til frambúðar, ef Danir beita áfram slíkri þröngsýni og óstjórn og þeir leyfa sér nú á Grænlandi, og misnoti svo herfilega þennan yfirráðarétt sem raun ber vitni um.

Það gæti líka komið til mála, að stórveldin þyrftu ekki að hafa svo mikið fyrir því að eignast Grænland sem að taka það með valdi. Það gæti eins vel komið fyrir, að Danir blátt áfram seldu Grænland. Ekki hikuðu þeir við að selja Vesturheimseyjar sínar, þegar þeir þóttust vera farnir að tapa á þeim. Eins gæti farið með Grænland. Yrði nú horfið að því ráði, að Íslendingar létu þessa deilu afskiptalausa, þá mundi það skaða Ísland stórkostlega í framtíðinni. Því verður ekki neitað, að Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta í Grænlandi, og að því athuguðu held ég, að ekki sé rétt að draga fjöður yfir skoðanir sínar í þessu máli, enda mun ég ekki draga til lands nokkuð af því, sem ég hefi sagt.