11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (1224)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það þarf ekki langt mál til að lýsa þessum till. Teksti till. sjálfra segir í raun og veru nægilega skýrt, hvað í þeim felst. Í landsreikningnum, sem fyrir liggur, eru í fyrsta sinn taldar allar skuldir ríkissjóðs. Það hefir verið ágreiningsmál manna á milli, hvernig bæri að telja fram skuldir ríkissjóðs, og jafnframt, hvernig beri að flokka þær. Það er tvennt, sem kemur til greina, sem þýðingu hefir, þegar um er að ræða, hvernig skuldir eru flokkaðar. Það er uppruni skuldanna annarsvegar og hinsvegar, hvort ríkissjóður stendur straum af þeim eða hvort aðrar stofnanir gera það. Út af þessu hefir ágreiningurinn verið manna á milli um flokkunina. En með till. sínum ætla ég, að n. finni þá leið, sem allir geta sætt sig við, sem sé að taka tillit til hvorstveggja þessara meginatriða, sem til greina koma og þýðingu hafa að þessu leyti. Þar er gert ráð fyrir, að skuldir séu greindar í 3 flokka eins og segir í till. Með 1. lið till. er jafnframt náð samkomulagi um, að rétt sé að telja fram allar skuldir ríkissjóðs og flokka þær eins og lagt er til í till.

Þá hefir það einnig valdið ágreiningi, hvenær rétt sé að telja til reiknings greiðslur hvers árs Það hefir komið fram hér við umr. um LR., sem í rauninni var vitað áður, að það hafi verið venja undanfarið að flytja nokkuð af útgjöldum hvers ár yfir til næsta árs. Fjhn. álítur, að það sé rétt að færa hvers árs greiðslur, tekjur og gjöld, á reikning þess árs sem þær tilfalla, en að svo búið verði að standa um það, sem liðið er. Ef þingið fellst á till. eða þennan lið hennar, þá hefir það þar með sagt til, hvernig þessu beri að haga framvegis.

Ég held, að ég þurfi ekki fyrir hönd n. að taka fleira fram þessari till. viðvíkjandi og vænti þess, að ekki muni þurfa að verða verulegur ágreiningur um hana.