15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (1233)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Einar Arnórsson:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram vatill. á þskj. 266. Hv. þm. V-Húnv. segir, að hún muni ekki geta komizt hér að, sökum formlegra ástæðna, því að hún lúti ekki að aths. yfirskoðunarmanna landsreikningsins. Í aths. yfirskoðenda landsreikningins 1929 er þó einmitt talað um á nokkrum stöðum þau atriði, sem till. mín fjallar um, og 42. aths. geymir heildargreinargerð umframgreiðslnanna. Yfirskoðunarmennirnir vita þar ýmsar umframgreiðslur, og þar getur líka aðfinnslu við það, að sumir liðirnir hafi farið fram úr því, sem ætlað var til þeirra. og telja þeir það betur ógreitt. Fæ ég því ekki séð, að það sé hugsunarrangt að setja þessa mína till. aftan við till. hv. fjhn.

Ef hv. stuðningsmenn stj. ætla að nota sér þessa tylliástæðu til að fella vatill. mína, eða að hæstv. forseti vísar henni frá, þá eru kannske einhver ráð til að koma henni inn í þingið á annan hátt, en hinu býst ég við, að þetta sé ekki hin raunverulega ástæða til að þessir hv. þm. vilja fella till., heldur sé orsakanna annarsstaðar að leita.

Hér liggur fyrir framan mig landsreikningurinn 1929. Eftir því, sem þar stendur, hefir verið heimilt að greiða samkv. fjárl. 10850 þús. kr., en hefir orðið 18346 þús. kr., svo að mismunurinn er 7496 þús. kr. Það er nú að vísu ekki rétt að segja, að allur þessi mikli mismunur hefi verið umframgreiðslur, sem engin heimild hafi verið fyrir, heldur hefir heimild verið fyrir sumu, eins og t. d. styrknum til Eimskipafél. Ísl., og svo ýms önnur gjöld, sem ákveðin hafa verið með lögum, fjáraukalögum og þál. En það, sem greitt hefir verið án heimildar, nemur 4211 þús. kr., ef tekið er gilt, að í sjóði sé nál. ein millj., sem deilt hefir verið um.

Ef landsreikningurinn er lagður til grundvallar, þá er það 4½ millj., sem greitt hefir verið án heimildar, en eins og ég hefi tekið fram, eru sum gjöldin þannig löguð, að ekki er hægt að komast hjá að inna þau af hendi, eins og þau, sem farið hafa fram úr áætlun og leita verður aukafjárveitingar fyrir. En svo eru ósköpin öll af gjöldum, sem engin heimild hefir verið fyrir; t. d. í 13. gr. fjárl. hafa umframgreiðslur orðið um 600 þús. kr. Það er að vísu svo, að sumt af þessu kann að hafa farið til þarflegra framkvæmda, en það raskar ekki þeirri reglu, að fjárveitingavaldið á að vera í höndum þingsins, en ekki stjórnarinnar.

Þetta atriði var rætt í sambandi við fjáraukal. 1930, og þá kannaðist hæstv. forsrh. við þetta. Jafnvel þótt stjórnin vilji vinna þarft verk, verður hún þó að leita til þingsins um málið og fá heimild þess fyrir slíku. Það er almenna reglan, enda flyttist fjárveitingavaldið úr höndum þingsins yfir til stjórnarinnar, ef svo væri ekki.

Fyrir utan þessar þarflegu aðgerðir eru svo ýmsar aðrar greiðslur, sem ekki verður sagt um, að hafi farið til þarflegra hluta. Ég hefi áður bent á ýmsa af liðunum og finn ekki ástæðu til að rekja það frekar, enda hafa yfirskoðunarmennirnir tekið nokkra af þeim upp. Í stóru upphæðunum eru ennfremur fólgnar greiðslur, sem enginn getur fullyrt, nema eins sé ástatt um. Hvaða dóm, sem menn annars vilja leggja á þetta, þá er það óskiljanlegt, ef þingið vill ekki staðfesta þá reglu, að stjórnin hafi ekki fjárveitingavaldið, heldur Alþingi, og að stjórnin megi ekki eyða fram yfir áætlun, nema lög, aðrar heimildir eða brýn nauðsyn sé fyrir hendi. Það er óskiljanlegt, ef nokkur þm. vill fella till., sem miðar til þess að halda uppi fjárveitingavaldi þingsins. Stuðningsmenn stj. segja, að í þessu liggi duldar ákúrur til stjórnarinnar. En till. mín er ekki bundin við eina ákveðna stjórn, heldur á hún að gilda til frambúðar, hverjir svo sem með völdin fara. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till., því það er auðvelt fyrir hv. þdm. að átta sig á till. En ef einhverjum finnst hún ekki vel orðuð, þá mun ég ekki verða á móti því, að orðalagi hennar verði breytt.