21.07.1931
Neðri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

40. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Í lögum frá 1921 eru ákvæði um visst hundraðsgjald af öllum útfluttum vörum, nema síld og síldarafurðum. Um það voru samin sérstök lög, og af þessum vörum er tekið miklu hærra útflutningsgjald en af öðrum vörum. Voru færðar fram sérstaklega þrjár ástæður þessu til réttlætingar. Hin fyrsta, að síldarútvegurinn væri að talsvert miklu leyti í höndum útlendinga, önnur, að atvinnuvegurinn væri mjög arðsamur og því rétt, að hann bæri hærri skatta en aðrir, sem minna gæfu í aðra hönd, og sú þriðja að atvinnuvegurinn drægi fólk frá öðrum atvinnuvegum um stuttan tíma árs, þeim til tjóns, og þótti þess vegna rétt að setja nokkurskonar „bremsu“ á of öra útþenslu hans.

Þessar þrjár ástæður eru nú allar fallnar burt. Með síldareinkasölunni komst síldarútvegurinn í hendur Íslendinga, og er ekkert nema gott um það að segja. Hitt er lakara, að önnur ástæðan, sú, að atvinnuvegurinn sé sérstaklega arðsamur, er líka fallin niður. Um þá þriðju, að atvinnuvegur þessi dragi sérstaklega fólk frá öðrum atvinnuvegum, er það að segja, að síldarútvegurinn er nú kominn í það fastar skorður, að hann notar að mestu sama vinnuaflið frá ári til árs.

Verð á síld hefir fallið ákaflega mikið frá 1921. Það mun láta nærri, að nettóverð á saltsíld hafi á árunum 1921–1928 verið um eða lítið yfir 20 kr. tunnan. Síðan hefir það lækkað niður í 8.50. Þetta gjald, kr. 1.50 á tunnu, er því afartilfinnanlegt fyrir framleiðendur síldar. Er farið fram á það í þessu frv., að það sé lækkað niður í 75 aura. Ég býst við, að margir líti svo á, að nú sé engin ástæða lengur til þess að undanskilja síld og síldarafurðir frá almennum ákvæðum um útflutningsgjald, og ég viðurkenni, að það væri réttast. En við flm. höfum tekið tillit til þess, að það er tilfinnanlegt jafnan fyrir ríkissjóð að missa tekjustofna, og þess vegna höfum við ekki farið lengra en þetta. Ég vil svo mælast til, að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til sjútvn. og 2. umr.