04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1932

Halldór Stefánsson:

Ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í þær umr., sem hér hafat orðið um fjárlögin almennt, að þessu sinni, heldur vildi ég gera stuttlega grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt og prentaðar eru á þskj. 183. Verður þar fyrst fyrir mér brtt. X, þar sem ég fer fram á það, að veittar verði 5000 kr. til þjóðvegarins í Skeggjastaðaþinghá. Í till. vegamálastjóra, sem lágu fyrir síðasta þingi, var lagt til, að 5000 kr. yrðu veittar til nýlagningar vega um miðju sveitarinnar, en vegir eru þar mjög vondir. Þó að þetta sé ekki mikil upphæð, kemur hún þó að miklu gagni, því að þegar búið er að bæta veginn um miðsveitina, opnast þar með möguleikar fyrir sveitina til að komast í akvegasamband við kauptúnið í Höfn við Bakkafjörð. Hitt verður að bíða seinni tíma, að sveitin fái sæmilegt vegasamband til hinnar handarinnar, Þórshafnar. Því að á þeirri leið er yfir heiði að fara.

Þá verður næst fyrir brtt. undir XIX. lið. Þar er farið fram á hækkun á fjárveiting þeirri, sem veitt er til þess að halda við byggð og gisting á afskekktum stöðum fyrir ferðamenn. Hækkunin nemur 500 kr. Ætlazt er til, að þessar 500 kr. renni til ábúandans á Víðidal á Möðrudalsfjöllum. Fyrir síðasta þingi lá beiðni um þetta. Beiðni sú var studd af umsögn og meðmælum kunnugra manna. En raunar má það vera öllum ljóst, hvílík nauðsyn er að halda við byggð á almannaleiðum á heiðum uppi, þar sem óraleiðir eru á milli bæja. Getur það bjargað lífi manna í vetrarferðum. Það hefir áður verið veittur slíkur styrkur til bæjar, sem var á heiðinni, en nú er fallinn í auðn. Sá bær var á milli Möðrudals og Skjöldólfsstaða á Jökuldal, en þessi bær, Víðidalur, er á milli Grímsstaða á Hólsfjöllum og Möðrudals. Það er með öllu viðbúið, að bær þessi, sem nú æskir þessa litla styrks, leggist líka í auðn, ef ekkert er að gert. Það er skiljanlegt, að þegar örðugt reynist að halda jörðum í ábúð í sveitum landsins — eins og sumsstaðar er —- þá sé það ekki síður erfitt að haldast við ábúð á heiðum uppi. Ég vil biðja hv. þdm. að athuga það, þegar þeir nú e. t. v. halda fjöreggi þessa bæjar milli handa sinna, hversu mikil viðbrigði það yrðu ferðamönnum, einkum í vetrarferðum, ef þessi bær legðist í auðn.

Þá á ég brtt. LXVIII, á sama þskj. Hún fer fram á, að J. Frímanni Jónssyni verði veitt 2500 kr. lán til þess að koma upp verkstæði til aðgerða á jarðyrkjuverkfærum, jarðyrkjuvélum, heyvinnuvélum og rafstöðvum, og til þess að koma upp nýjum rafstöðvum fyrir Fljótsdalshérað, þegn þeirri tryggingu, sem stj. metur gilda. Lánið sé vaxtalaust og endurgreiðist með jöfnum afborgunum á 10 árum. Það hefir legið fyrir í lestrarsal erindi frá þessum manni. Er þar gerð ýtarleg grein fyrir því gagni, sem af því mætti verða, að íbúarnir í þessu með tilliti til samgangna afskekkta héraði gætu leitað aðgerða á rafstöðvum sínum og verkfærum innan héraðs. Í fjárl. fyrir árið 1928 var stj. heimilað að veita Bjarna Runólfssyni á Hólmi 5000 kr. lán til þess að koma upp rafstöðvum. Lán þetta var að öllu leyti með sömu kjörum og það lán, sem hér er farið fram á, nema það var til 20 ára, í stað þess, að þetta er einungis til 10 ára. Í fjárl. fyrir árið 1930 var stj. veitt heimild til þess að lána tveimur mönnum, Sigfúsi Vigfússyni og Guðmundi Einarssyni, 5000 kr. hvorum til þess að leiðbeina og aðstoða við rafstöðvabyggingar. Lán þessi áttu að vera með sömu vaxtakjörum og hin fyrrnefndu, en ekki nema til 15 ára. Nú er hér í þessari till. minni aðeins farið fram á helming þess fjár, sem getur um í þessum heimildum, er ég hefi nú nefnt, og þar að auki til miklu styttri tíma. Ég skal geta þess, að ætlazt var til, að annar þeirra manna, sem ég nefndi áðan, hefði verkstæði á Austurlandi, en hinn á Vesturlandi. Á Vesturlandi mun þetta verkstæði vera komið upp, en ekki hefir orðið af því, að þessi heimild væri notuð á Austurlandi. Hér er því í þessari till. minni að nokkru leyti aðeins um endurveitingu að ræða og það að standa við gefin loforð um að gera þessum afskekktu héruðum greiðara fyrir um aðgerðir á verkfærum sínum og vélum.

Þá verður loks fyrir brtt. LXIX, á sama þskj., við 22. gr. IV. nýr liður. Í till. þessari er farið fram á lán til Hjaltastaðahrepps í Norður-Múlasýslu, að upphæð 25 þús. kr. í 20 ár með 6% vöxtum. gegn ábyrgð sýslun. N.-M. Samskonar heimild var veitt í fjárl. fyrir árið 1930, en það reyndist oft stuttur tími fyrir hlutaðeigendur til þess að koma sér saman um skilyrðin fyrir því, að heimildin yrði notuð, og árið 1930 leið svo, að ekki komst á samkomulag. Nú mun samkomulag fengið milli þeirra, sem hlut eiga að máli, og því líklegt, að heimildin yrði nú notuð, ef hún yrði veitt. Hér er því eiginlega ekki um annað en endurveitingu að ræða, og tel ég það Alþingi lítt sæmandi að standa ekki við gefið loforð, þó að svo hafi tekizt til, að heimildin gat ekki orðið notuð á þeim tíma, sem ætlað var. Ég hefi tekið eftir því, að meðal brtt. á þskj. 183 eru nokkrar, sem eru sambærilegar við þessa, þótt það sé að vísu ekki að öllu leyti. Í till. þessum er farið fram á aðstoð ríkisins til handa hreppum, sem að einhverju leyti hafa orðið hart úti í straumhvörfum styrjaldaráranna, eða á annan hátt orðið hart úti, svo sem vegna fátækramála, og treysta sér ekki til að rísa undir þeim byrðum, sem á þá hafa hlaðizt. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um ástæður þær, sem liggja til grundvallar fyrir þessari till. minni. Það var gert allrækilega þegar þingið veitti þessa heimild árið 1929, og ég læt mér nægja að vísa til þess, sem þá var um þetta mál rætt.

Þá vil ég geta þess, að ég er viðriðinn brtt. á þskj. 194, um hækkun á rekstrarstyrk húsmæðraskólans á Hallormsstað. Ég mun þó ekki gera grein fyrir henni; aðalflm. hennar, hv. 1. þm. S.-M., mun gera það.