03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

40. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mig furðar á afgreiðslu n. á þessu frv., sérstaklega á því, að hvergi er getið um það í nál., að neitt annað frv. sé á ferðinni um sama efni. Annars skiptir það litlu máli, en mér finnst furðulegt, sérstaklega þegar litið er til þess, sem hv. frsm. sagði um ástand síldarútvegsins, hversu mikil þörf honum væri á því að vera veitt liðsinni og hversu aukið gæti oltið á því, að tollur væri færður niður, að þeir skyldu ekki lækka hann nema um 50 aura. Ég get ekki frá því vikið, að eðlilegast sé, að um síld og síldarafurðir gildi sömu ákvæði og um útflutningsgjald af öðrum vörum. Það er ekki hin minnsta ástæða fyrir hendi að leggja hærra gjald á þessar afurðir. Útflutningsgjaldið er stór liður í kostnaði við atvinnurekstur, eins og sjá má af því, að útflutningsgjald af síldartunnu er 1.50 kr. og innflutningsgjald af saltinu 0.50 kr., þannig að tollur á síldartunnu er um 2 kr. Þá er tollur hvorki meira né minna en 22%–25% af andvirði síldarinnar. Þeir, sem stunda þessa atvinnu, verða að gjalda í toll um ¼ part af þeirri veiði, sem flutt er á land. Það er bersýnilegt, að þetta er gegndarlaus rangsleitni og heimska, að hafa þennan skatt svo háan, að það nær engri átt. Mig furðar á því, að hv. frsm. skuli hafa gengið inn á þessa breyt. Ég mun þó sennilega ekki greiða atkv. móti þessu frv.