03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

40. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég get tekið undir það með hv. þm. Seyðf., að það sé ekki réttmætt, að tollur á síld sé hærri en á öðrum sjávarafurðum. En mér var ljóst af þeim undirtektum, sem við í n. höfum fengið um þetta mál, að ekki myndi verða kostur á að fá þessa breyt. Þess vegna vildum við flm. frv. sætta okkur við að þessu sinni, að lækkunin yrði ekki meiri en þetta, með tilliti til þess að fá afnuminn toll af sykri og kryddi. Ég álít, að þó ekki sé stigið fullt spor í þá átt að létta tollum af síldarútveginum,þá sé þetta þó töluvert í áttina og það sé betra í bili en engin lækkun.