04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1932

Lárus Helgason:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 183, og vil ég setja um þær fáein orð. Það er þá fyrst brtt. undir tölul. XIII, við 13. gr., nýr liður. Þar er farið fram á 10 þús. kr. fjárframlag til Brunahraunsvegar. Því er þannig varið með þenna veg, að það er þegar búið að leggja hann út í mitt hraunið, en sá vegarspotti kemur, eins og gefur að skilja, að engu haldi, fyrr en búið er að ljúka við veginn alveg í gegnum hraunið. Vegamálastjóri segir, að fé það, sem þurfa muni til þess að ljúka veginum. sé um 10 þús. kr. Ég hefi nú hreyft þessu máli við hv. fjvn., en hún hefir ekki séð sér fært að taka þetta upp á arma sína. Ég get nú samt ekki séð, að sumir þeir liðir, sem nú eru í frv., eigi meiri rétt á sér en þessi mjög svo nauðsynlega fjárveiting. Vegur þessi er í þjóðleið, og meðan ekki er hægt að fullgera hann, þurfa ferðamenn að krækja langan veg, líklega röska klst. ferð, til þess að komast suður fyrir hraunið og á veginn aftur. Engum þeim, sem kunnugur er þessu máli, getur blandazt hugur um, að hér sé mjög mikil þörf skjótrar og góðrar aðgerðar. Og hefði verið nægur mannafli til, þegar vegarspotti sá, sem nú er, var lagður, þá hefði veginum öllum verið lokið þá þegar. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en ég vona, að öllum hv. dm. skiljist, að hér er verið að biðja um fé til þarfra framkvæmda og mjög aðkallandi.

Næsta brtt., sem ég á á þessu sama þskj., er merkt XV, einnig við 13. gr. frv. Till. þessi fer fram á 12 þús. kr. til brúargerðar á ána Skálm á Mýrdalssandi. Á Mýrdalssandi hagar svo til, að tvær ár falla um hann, sem einkum hindra umferðina. Önnur áin rennur vestast á sandinum, og heitir sú Múlakvísl. Hin áin, Skálm, rennur á að gizka 20 km. austar. Múlakvísl munu hv. þm. oft hafa heyrt nefnda. Það er jökulá, oft vatnsmikil og vond yfirferðar, og væri mikil þörf á að brúa hana, þó að ég hafi hugsað mér að fara ekki fram á það í þetta sinn, þar sem ekki er annað sýnna en að þröngt geti orðið í búi hjá ríkinu nú á næstu árum. Ég fer aðeins fram á að fá brú á ána Skálm, sem er fremur lítil, en eigi að síður til hins mesta farartálma. M. a. tekur hún fyrir alla bifreiðaumferð um sandinn, nema þegar hún er minnst á vorin. Ef brú fæst á þessa á, þá er bílvegur alla leið austan af Síðu og vestur að Múlakvísl. Mun þessi bílfæri vegur vera um 60 km. að lengd. Það kemur oft fyrir þeg- ar áin er sem allra minnst, að brotizt er yfir hana með bifreiðar. Vilja þær þá festast í ánni, og eins og allir hljóta að sjá, þá eru þetta mjög hvimleið og erfið ferðalög. Með brú á þessa á væri stórt spor stigið í þá átt að greiða fyrir samgöngum austur um sveitirnar. Þótt Múlakvísl sé ekki brúuð, þá er hægt að komast yfir hana á ferju. og taka svo aðrar bifreiðir þar, ef menn vilja halda áfram austur á Síðu. Við Skálm er aftur á móti engin ferja né tæki til þess að komast yfir, þar sem hún rennur svo langt frá byggð.

Þá á ég 3. brtt., undir XLVII. lið. Efni hennar er hækkun á styrknum til Sambands ísl. heimilisiðnaðarfélaga, og er tekið fram, að laun Halldóru Bjarnadóttur skuli vera 3000 kr. Halldóra Bjarnadóttir er búin að vinna þessu landi meira gagn heldur en almennt gerist. Kona þessi hefir afarmikinn áhuga fyrir hverskonar iðnaði og öllu því, sem betur má fara.

Hún hefir haft þetta starf sitt mjög lengi með höndum, en það er, eins og mönnum er kunnugt, mjög illa launað og hún efnalega illa stödd. Síðustu árin hafa laun hennar verið 1800 kr. á ári, eða sem svarar 150 kr. á mánuði. Það má telja víst, að hefði einhver karlmaður leyst annað eins verk af hendi og ungfrú Halldóra hefir gert, þá hefði ekki þótt sæma að greiða honum ekki nema 150 kr. á mánuði. Ég flyt þessa brtt. mína um 1200 kr. hækkun á styrk til sambandsins með það fyrir augum, að unnt verði að veita ungfrú Halldóru Bjarnadóttur sæmilegri laun en hún hefir nú. Vona ég, að Alþingi viðurkenni nú starf þessarar konu með því að samþ. þessa litlu hækkun.

Þá er 4. brtt., sem ég á, undir LXI. lið. Till. þessa flytja þeir með mér, hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. A.-Sk. Till. er um 10 þús. kr. skaðabætur til Vigfúsar Gunnarssonar að Flögu í Skaftártungu fyrir tjón það, sem hann beið, er hús hans brann til kaldra kola í desembermánuði í vetur sem leið. Bruni þessi orsakaðist af eldingu, sem sló niður í 4 metra fjarlægð frá bænum. Svo mikið var að þessari eldingu kveðið, að hún tætti í sundur átta símastaura á línunni. Barst eldingin svo í húsið um hánótt, er allir menn voru í fasta svefni. Fárviðri var á, og bjargaðist fólkið með naumindum út úr húsinu á nærklæðum einum saman. Brunnu þarna inni allir fjármunir hjónanna. Húsið, sem var nýbyggt, var aðeins vátryggt fyrir 10 þús. kr., eða líklega ekki nema fyrir helming þess, sem það var vert. Hér liggur fyrir skýrsla um það, sem inni brann, gefin eftir minni heimilisfólksins. Er auðsætt, að þar er farið mjög varlega í sakirnar, en samt sem áður er tjónið við brunann metið á 13 þús. kr. Býli þetta liggur í þjóðbraut. Þar var landssímastöð, og hefir það eflaust orsakað brunann, þar sem eldingin komst í húsið eftir símaleiðslunni. Er því ekki nema sanngjarnt, að landið taki einhvern þátt í þessu tilfinnanlega tjóni, sem hjónin að Flögu hafa orðið fyrir. Landssímastjóri hefir að vísu haft á móti því, að þetta fé verði greitt frá landssímanum. Telur hann, að ekki sé fullsannað, að bruninn hafi orsakazt af símaleiðslunni. Segir hann, að í húsið liggi aðrar raftaugar.

Það er rétt, að rafstöð er á bæ þessum, en þær leiðslur koma í bæinn úr allt annari átt, og auk þess er það fullsannað, að stöðin var ekki í gangi þessa nótt. Við flm. höfum viljað fara sem allra vægast í sakirnar, og því aðeins farið fram á tæpan helming þess fjár, sem ætlað er að hjónin hafi tapað við þetta hörmulega atvik. Ég held, að ekki sé hægt að segja eins og landssímastj., að hér sé um hættulegt fordæmi að ræða, því að ég hefi átt tal við símaverkfræðing, sem tjáði mér, að þetta hafi ekki komið fyrir, að kviknað hafi í húsi af völdum símans, fyrr en nú. Þótt þetta kunni nú að koma fyrir á 25 ára fresti, þá er ekki hægt að segja, að hér sé um ljótt fordæmi að ræða. Hitt finnst mér öllu ljótara fordæmi, ef hið opinbera tekur nú ekki þátt í þessu tjóni, sem þessi maður hefir beðið, og léttir undir með honum með fjárveitingu. Ég þykist nú hafa farið nógu mörgum orðum um þessi fjárframlög í heild, en vil að endingu benda mönnum á, að ég hefi ekki lagt það í vana minn að bera fram brtt., nema um brýna nauðsyn hafi verið að ræða, og svo er það hér.