20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

40. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er ekkert nýtt, að farið sé fram á það á Alþingi, að létt sé útflutningsgjaldi af síld. Hafa verið gerðar til þessa margar tilraunir á undanförnum árum, en hafa engan árangur borið. Nú hefir þetta frv. verið flutt í Nd. og afgr. þaðan með miklum meiri hl. Fer frv. fram á það, að tollur af hverri síldartunnu sé færður niður í kr. 1.00 úr kr. 1.50. Vil ég ekki fjölyrða um sanngirniskröfu þá, sem liggur að baki þessu frv. Þó að útflutningstollur af síld sé færður niður í 1 kr., þá er hann þó hærri en af öðrum íslenzkum vörum. Þessi breyt. á tollalöggjöfinni hefir í för með sér tekjulækkun ríkissjóðs, sem getur numið 70–90 þús. kr. á ári. Veit ég að margir munu segja, að á þessum tímum sé ekki vænlegt að vera að svipta ríkissjóð tekjum. En þess ber að gæta, að hér er skattur lagður á atvinnugrein, sem nú á erfiðast uppdráttar, jafnvel meir en aðrar, sem illa eru stæðar. Þegar á það er litið, að tollur þessi er geysihár, má ekki horfa í það, þótt rýrni tekjur ríkissjóðs.

Frv. felur einnig í sér ívilnun að því er snertir síldarsöltun á öðru sviði. 2. gr. gerir ráð fyrir endurgreiðslu á innflutningstolli af sykri og öðru, sem notað er við sérverkun síldar. Má segja um þessa ívilnun eins og tollalækkunina, að full sanngirni mælir með henni. Er það óeðlilegt að íþyngja síldarframleiðslunni með tollum á vörum þeim, sem nauðsynlegar eru, til þess að hægt sé að verka síld svo að hún verði útflutningshæf. Engin verkun á síld er eins hagkvæm fyrir okkur og þessi sérverkun, því að í samkeppninni við aðrar þjóðir stöndum við bezt að vígi með sérverkaða síld. Við getum framleitt betri vöru en þeir, sem verða að salta utan landhelgi. En við höfum við erfiðleika að stríða um ýmislegt það. er þarf til síldarverkunar. Tunnur verðum við að kaupa frá útlöndum, og það, sem við reynum að smíða hér sjálfir, verðum við að flytja inn sem hráefni. Vinnulaun virðast vera hér hærri við slíkan starfa en annarsstaðar, t. d. hjá Skotum. Mér virðist það því alveg sama sanngirniskrafan, að endurgreiddur sé innflutningstollur af þessum vörum. — Vænti ég þess, að hv. deild taki málinu svipað og Nd., sem samþ. það, og að málið megi ná fram að ganga, áður en þingi lýkur, svo að síldarútvegurinn geti notið þess þegar á þessu ári.