22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

55. mál, byggingar- og landnámssjóður

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. er alveg shlj. frv., sem lá fyrir þinginu 1930 og var þá komið í gegnum báðar d. þingsins og átti aðeins eftir eina umr. til þess að verða að lögum.

Þótt frv. þetta sé stutt og kunnugt frá fyrra þingi, þá þykir mér hlýða að fylgja því nú úr hlaði með nokkrum orðum. 1. gr. frv. er til komin á þann hátt, að í lögum um byggingar- og landnámssjóð eru ákvæði um, að ekki skuli veita lán úr sjóðnum til annara en þeirra, sem séu það vel efnum búnir, að þeir geti rekið búskap á jörðum sínum, en þó ekki svo efnaðir, að þeir geti byggt á jörðunum af eigin rammleik. Nú hefir stj. sjóðsins orðið fyrir aðkasti fyrir það að hafa lánað mönnum, sem stæðu sig svo vel, að þeir í raun og veru þyrftu ekki lánsins með. En til þess að koma í veg fyrir, að þetta geti komið fyrir, þykir nauðsynlegt að setja í lögin ákvæði, sem mæli svo fyrir, að sá, sem lánsins æskir, sé skyldur að senda sjóðsstj. afrit af skattskrá sinni, til þess að hún fái yfirlit yfir efnahag mannsins.

2. gr. frv. fjallar um það, að sjóðsstj. sé á ári hverju heimilt að veita lán til 10 algerðra nýbýla. En eins og nú er, mæla lögin svo fyrir, að byggingar á gömlum býlum skuli ganga fyrir um lán, og eins býli, sem verða til vil skiptingu gamalla býla.

Þetta þykir einskorðað, að mega ekki veita nein lán til algerðra nýbýla, sem vel getur orðið sum árin eftir lögunum ein, og þau eru nú, og þess vegna er sú breyt., sem felst í þessari gr. frv., fram komin.

3. gr. frv. fer fram á, að breytt verði rentum af lánunum. Eins og kunnugt er, eru aðalrentuflokkarnir 3. Í 1. flokki eru lán til þess að endurreisa íbúðarhús á gömlum sveitabýlum, með 5% afgjaldi í greiðslu og vexti af allri upphæðinni í 42 ár. Í 2. flokki eru lán til nýbýla, sem reist eru á ræktaðri jörð, eða til þess að reisa nýbýli, sem ræktað land fylgir, með 3½% afborgunum í vexti og greiðslu í 50 ár. Í 3. flokki eru lán til nýbýla, sem reist eru á óræktaðri jörð og ekkert ræktað land fylgir. Afborganir í vexti og greiðslur af þessum lánum eru engar fyrstu 5 árin, og síðan skal niðurfæra höfuðstólinn með jöfnum afborgunum á 50 árum, en enga vexti greiða. Er þetta sama og að greiða 2% í afborganir af lánunum allan tímann.

Fyrst er nú það, að það virðist ekki ástæða til þess, þegar jörð er skipt í 2 hluti og byggt upp á báðum hlutum, að veita lán með mismunandi vaxtakjörum, því vitanlega er jafnerfitt fyrir báða aðila að byggja upp, þó annað heiti nýbýli, en hitt ekki. Þess vegna eiga báðir þessir aðilar að njóta sömu kjara. Sá, sem byggir nýbýlið, hefir forréttindi til lána til útihúsabygginga.

Þá hefir sjóðsstj. ekki álitið rétt að lána mönnum aðeins 2% vaxtalaus lán, sem byrja á byggingu áður en ræktað er. Ákvæði sjóðsins eru þannig, að þeir, sem fá lán til þess að byggja á óræktuðu landi, eiga að njóta lægstu kjara. Rétta leiðin til þess að fjölga býlunum er að rækta fyrst og byggja síðan. En ef menn hafa þessa aðferð, þá er þeim hegnt með því að láta þá greiða hærri vexti. Þetta er algerlega ófært, og þess vegna hefir verið lagt til, að þetta síðarnefnda lán hækki frá því, sem áður hefir verið.

Þá kemur 4. gr. Hún takmarkar, hve lánsupphæð til einstaks manns má vera mikil. Það horfir til stórvandræða fyrir sjóðinn, sem er félítill, hvað sum húsin vilja verða dýr, og til þess að takmarka það, hefir komið frá sjóðsins hendi uppástunga um það, að hámarkslán til eins manns megi vera 10 þús. kr. Á þann hátt geta fleiri notið styrks úr sjóðnum en ella myndi, og menn myndu þá sníða byggingarnar eftir lánsheimildinni — þ. e. byggja minna og ódýrara en ella.

Þá er 5. gr., sem kemur fram með brtt. við 9. gr. laganna. Í 9. gr. er ákveðið, hversu dýrt megi leigja jarðir, sem hefir, með láni úr sjóðnum, verið byggt á. En nú er það komið í ljós, að þessi leiga er svo lág, að undir mörgum kringumstæðum er hún ekki nógu há til þess að borga afborganir af lánum, sem á jörðunni hvíla. Þess vegna er það nauðsynlegt að hækka þá leigu, sem heimiluð er í lögunum, upp í það, sem hér er farið fram á, 5% af landverði og 4% af húsaverði, eða sem næst sparisjóðsvöntum af jörðum, og sem næst verði húsa, sem húseigendur verða að greiða fyrir lánin til þeirra.

Þá kemur nýmæli í 6. gr. frv. um það, að stj. sjóðsins sé heimilt að lána til bygginga á fjórum fyrirmyndarbúum, einu í hverjum fjórðungi.

Á þessum viðreisnartímum er mikil nauðsyn þess að gera tilraunir til þess að afla þekkingar á þann hátt, um það, hvernig búskapurinn eða einstakar greinir hans geti bezt borið sig. En ráðið til þess að það takist, getur m. a. verið það að koma í fót slíkum stofnunum og veita lán til þess að byggja nægileg hús fyrir þessi bú og fá þau svo í hendur einstökum mönnum, sem tækju á sig þær kvaðir, sem því fylgja að gera þær tilraunir, sem nauðsynlegar eru til að fá lausn á ýmsum þesskonar spurningum, sem nú fæst hvergi svarað. Held ég, að slíkt fyrirkomulag væri heppilegra en að ríkið sjálft ræki slík bú.

Ætla ég svo ekki að hafa framsöguna lengri, en vildi leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og landbn.