04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1932

Bernharð Stefánsson:

Ég flyt hér aðeins eina litla brtt., en við 2. umr. flutti ég enga, svo að varla verður um mig sagt, að ég hafi syndgað mikið við afgreiðslu þessara fjárlaga.

Brtt. mín er undir VI. lið á þskj. 194 og fer fram á það, að Halldór Kr. Jónsson, bóndi á Brekku í Svarfaðardal. fái 600 kr. styrk til dýralækninga. Þessi maður hefir stundað dýralækningar alla tíð frá því árið 1913. Ég veit ekki vel, hvernig námi hans var háttað, en hitt veit ég, að hann stundaði dýralækninganám. og dýralækningar hans hafa gefizt mjög vel. Hv. þdm. hafa annars átt kost á að kynna sér málið í skjölum, sem legið hafa frammi í lestrarsalnum, og eru þ. á m. meðmæli frá hreppstjóranum og hreppsnefndinni í Svarfaðardalshreppi og lækninum í því héraði. Starf þessa manns sem dýralæknis er nú orðið svo mikið, að hann getur ekki stundað bú jafnhliða, og get ég nefnt því til sönnunar, að á síðustu árum hefir hann verið sóttur í slíkum erindum 160–180 sinnum á ári, og hefir hann stundum orðið langt að fara. Er því auðsætt, að æðimikill tími fer í þetta. Því er nú komið svo, að hann hefir milli þess tvenns að velja, að hætta við dýralæknisstörfin eða hætta við búið, og hefir hann valið síðari kostinn sökum áskorana mikils fjölda manna, og þá einkum Svarfdælinga. Það er hinsvegar auðsætt, að til þess að geta fengizt við þenna starfa, verður maðurinn að hafa ofurlitla fasta þóknun, og hefir Svarfaðardalshr. gengið inn á að greiða honum 400 kr. á ári, gegn því, að hann gefi sig eingöngu við þessu, en það er vitanlega allt of lítið, og því fer ég hér fram á 600 kr. viðbótarstyrk honum til handa, enda munu 1000 kr. það minnsta, sem hann getur látið sér nægja. Ég vil einnig benda hv. þdm. á það, að hér er svo sem ekki um neitt einstakt eða óheyrilegt fordæmi að ræða. Því að annar maður hefir áður haft og hefir enn slíkan styrk í fjárlögum.

Ég ætla ekki að fara að ræða almennt um fjárlögin, en ég get þó ekki stillt mig um að drepa lítið eitt á XX. till. á þskj. 183, frá þeim hv. þm. Dal. og hv. þm. Ak., sem er þess efnis, að styrkurinn til flóabátferða verði hækkaður um 2000 kr., og þykist ég vita, að ætlun þeirra sé sú, að fé þetta gangi til Eyjafjarðarbátsins. Ég ætla ekki að fara mikið út í þetta mál, því að ég geri ráð fyrir, að flm. tali fyrir því, en hinu vil ég lýsa yfir, að ég er þessu alveg samþykktir. Þótt og léti kyrrt liggja við 2. umr., fannst mér það þó allundarlegt, að hv. samgmn. skyldi gera það að till. sinni, að styrkurinn væri hækkaður við tvo slíka báta, en lækkaður við þennan, því að vitanlega liggja engin þau rök fyrir, sem réttlætt geta þetta á nokkurn hátt.