15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (1270)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Einar Arnórsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, að aths. yfirskoðunarmanna gæfu ekki tilefni til till., þá vil ég árétta það, sem ég sagði, að aths. gefa einmitt tilefni til hennar. Í 42. gr. aths. er upp talið, hvað hafi verið greitt umfram fjárveitingar og hefir þurft að leita aukafjárveitingar til. Það eru ekki svo fáir liðir, sem greiddir eru án heimildar og án nauðsynja frá hendi stjórnarinnar.

Ég kannast við, að það hefði verið æskilegt, að fjhn. hefði sjálf komið fram með slíka till., og betur viðeigandi. En úr því að það var nú ekki, þá sé ég ekkert á móti því, að einstakur þm. beri hana fram.

Hv. 1. þm. N.-M. og mér ber ekki á milli um tölur, sem hér koma til greina. Hitt þarf ekki að segja mér, að það hafi verið leitað aukafjárveitingar. Það er auðvitað, að það haggar engu um það, sem ég hefi sagt um fjárveitingavald þingsins og stjórnarinnar. Af því að stj. hefir ekki haft heimildir, hefir einmitt verið leitað aukafjárveitingar.

Það er vitanlega rétt, að í raun og veru er í 37. gr. stjórnarskrárinnar bann við því að greiða gjöld umfram heimildir í fjárl. En það er torvelt að skýra þessi ákvæði stjórnarskrárinnar og því ekki ástæðulaust, þó þingið láti í ljós vilja sinn, þrátt fyrir þetta ákvæði. Ef þingið segði ekkert um þetta, þá yrði afleiðingin sú, að 37. gr. yrði dauður bókstafur, eins og hún hefir verið nú um stund. (HStef: En till.?). Hún er aðeins árétting og yfirlýsing um það, að þingið vilji, að stj. hlýði þessum fyrirmælum stjórnarskrárinnar. Það eru engin vonbrigði fyrir mig, þótt stjórnarflokkurinn felli till., því að hann er nýbúinn að fella viðaukagr. við fjárl., sem átti aðeins að gilda fyrir eitt ár, en yfirlýsingin á eigi aðeins að ná til næsta fjárhagstímabils, heldur og vera aðhald að stjórnum framvegis.