15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (1273)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að segja fáein orð út af ummælum hv. þm. V.-Húnv. um brtt. hv. 2. þm. Reykv. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. getur haldið því fram, að hún geti ekki verið ályktun út af aths. endurskoðenda landsreikninganna. Hv. þm. veit, að allar stærstu aths. eru út af umframgreiðslum, og væri hlægilegt, ef ætti að fara að vísa till. hv. 2. þm. Reykv. frá, þar sem allir þm. hafa rétt til þess að koma fram með till. út af aths. endurskoðenda landsreikninganna.

Hvað snertir brtt. þessa hv. þm. við brtt. n., þá er ég sammála hv. frsm. um, að það skiptir ekki miklu máli, hvort þær verða samþ. eða ekki. Allir eru sammála um það, að flokka þurfi þessar skuldir, og það er aukaatriði, hvort flokkarnir eru kallaðir I og II eða a og b. Eftir till. hv. þm. virðist hann líta svo á, að skuldir undir 2. lið séu skyldari innbyrðis en t. d. skuldir undir 1. lið. Þetta er í raun og veru aukaatriði, en virðist þó aðeins til þess að gera reikningsfærsluna flóknari. Ég mun sem sagt halda mér við till. hv. n. óbreytta, en hinsvegar hefi ég ekki á móti því, að brtt. hv. 2. þm. Reykv. verði samþ.