04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1932

Guðbrandur Ísberg:

Ég á hér eina litla brtt. við 13. gr., þar sem er farið fram á, að styrkur til flóabátaferða skuli hækka úr 89 þús. kr. upp í 91 þús. kr., en það er sú upphæð, sem veitt er í fjárlögum yfirstandandi árs til flóabáta. Við erum tveir um þessa till., ég og hv. þm. Dal. Við fluttum fyrst, hvor í sínu lagi, brtt. um 1000 kr. hækkun til flóabáta, ég til bátsins á Eyjafirði, en hann til bátsins á Breiðafirði, og svo slógum við okkur saman um að flytja þessa einu brtt. Við áttum hægt með það, vegna þess, að við erum báðir kunnugir á þessum stöðum og þekkjum nauðsyn héraðanna í þessu efni.

Um Eyjafjarðarbátinn vil ég fyrst taka það fram, að hann hefir verið rekinn með rekstrarhalla síðustu ár. Síðasta ár var rekstrarhallinn 3 þús. kr., og er þá ekki talin með nauðsynleg afskrift á bátnum. Sýnir það, hve erfiður þessi rekstur er, að mönnum þeim, er að bátnum standa, skuli virðast sá möguleiki svo fjarlægur, að hægt muni vera að leggja eitthvað til hliðar vegna fyrningar á skipinu, að þeir hirða eigi að taka fyrningu með á yfirlitsreikningi. Mætti sú upphæð þó naumast vera minni en 3 þús. kr., svo að raunverulegur rekstrarhalli er þá um 6 þús. kr. Félag það, er heldur bátnum úti, hefir farið fram á það við Alþingi, að þessi styrkur til félagsins verði hækkaður um 5 þús. kr. upp í 20 þús. kr., í líkingu við það, sem Djúpbáturinn á Ísafirði hefir nú, en samgmn. hefir ekki séð sér fært að taka þá beiðni til greina, heldur þótti ástæða til að lækka styrkinn úr 15 þús. kr. niður í 14 þús. kr. Það, sem hér er farið fram á, er því aðeins það, að styrkurinn sé látinn halda sér.

Nauðsyn þeirra ferða, sem Eyjafjarðarbáturinn annast, er mikil og auðsæ. Á öllu svæðinu eru samgöngur á landi mjög erfiðar og á vetrum oft ómögulegar, svo að ef þessar ferðir legðust niður, yrðu sumar sveitir að vera án allra samgangna mikinn hluta ársins. Má þar sérstaklega benda á kauptúnið í Ólafsfirði, sem hefir á 6. hundrað íbúa, og sömuleiðis Dalvík, sem geta ekkert fengið flutt að eða frá nema sjóleiðis, vegna vegleysu á landi; og íbúar þessara o. fl. þorpa geta ekki notað sína eigin báta til flutninga á vetrum, því þeir verða vegna hafnleysis og brima að láta þá liggja á Akureyri eða Siglufirði vetrarmánuðina.

Ég nefni þessi þorp, Ólafsvík og Dalvík, af því að þar eru svo margir íbúar, en það mætti vel nefna aðra staði, þar sem er nærri því eins ástatt. En það mun hafa vakað fyrir samgmn., þegar þessi styrkur var lækkaður, að það mætti spara flóabátnum ferðir austur á bóginn til Húsavíkur og fleiri hafna, vegna þess að strandferðaskipin gætu annazt flutninga á þeim slóðum. En forstjóri félagsins hefir tjáð mér að þó að þessar ferðir féllu niður, þá væri flóabáturinn lítið betur settur fyrir það, á meðan hann yrði að elta litlar hafnir, eins og t. d. Grímsey og Flatey, og fleiri hafnir þar austur frá, þar sem strandferðaskipin koma aldrei. Þó að ferðunum kynni að vera fækkað þarna, þá er full nauðsyn á að fjölga þeim vestur á bóginn, því að á margar hafnir þar koma strandferðaskipin næstum því aldrei. Það er víst, að íbúar héraðanna meðfram Eyjafirði, í Þingeyjarsýslu og Skagafirði austanverðum, munu ekki una því, að ferðir Eyjafjarðarbátsins verði lagðar niður. En búast má við, að svo verði, ef báturinn fær ekki aukinn styrk. Enda gat félagsstj. þess í styrkbeiðni sinni, að ef hún fengi ekki þann viðbótarstyrk, sem farið var fram á, þá yrði hún að leggja bátaferðirnar niður. Ég skal geta þess, að ég mæli hér ekki fyrir hönd stjórnar félagsins. Það getur vel verið, að félagið neyðist til að hætta störfum og leysist upp, þar sem það fékk ekki þann viðbótarstyrk, sem það fór fram á, til þess að geta látið Eyjafjarðarbátinn ganga áfram. En ef styrkurinn verður ekki lækkaður, þá eru líkur til, að félagið reyni að halda ferðunum áfram eitt ár til, í von um, að því takist að sýna Alþ. fram á og sanna nauðsyn þess að halda ferðunum áfram. Ég veit svo ekki, hvort ástæða er til að fjölyrða meira um þetta. Ég veit, að ýmsir af hv. þdm. þekkja svo vel nauðsyn þessa máls, að ég treysti þeim til að greiða atkv. með till. minni. Það eru aðeins 1000 kr., sem ætlazt er til, að greiddar séu til Eyjafjarðarbátsins, en hv. þm. Dal. mun tala fyrir hækkuninni til Breiðafjarðarbátsins.