20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (1297)

324. mál, Hafnarfjarðarvegur

Jón Baldvinsson:

Ég er sammála hv. flm. þessarar till. um það, að nauðsynlegt sé að rannsaka, hvert sé hið heppilegasta frambúðarvegarstæði milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og gæti ég að því leyti greitt till. atkv. — Hér hefir annars allnokkuð verið rætt um þennan veg, bæði í sambandi við frv. það, sem hv. flm. gat um, og eins í sambandi við einstakar till. um að taka þennan veg upp í fjárlögin. Síðan hefir vegamálastjóri sent þinginu umsögn sína um þetta mál, sem flm. vitnaði til, þar sem hann telur, að fram þurfi að fara ný rannsókn á þessum vegi, en að því er ég fæ bezt séð, mun þess ekki þurfa, því að málið hefir verið það mjög rannsakað, enda þegar mælt fyrir þessu vegarstæði milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar árið 1917.

Mér þykir það annars að till. hv. flm., að þar er ekki ákveðið, að þessari rannsókn skuli lokið það snemma, að hægt væri að byrja á þessu verki strax í haust, eins og ég hygg, að fram megi fara, þar sem vegamálastjóri mun hafa þær athuganir á þessum vegi frá því, er vegarstæðið var mælt út 1917, eins og ég gat um, að þetta ætti ekki að þurfa tímafrekan undirbúning. Væri heppilegast allra hluta vegna, að hægt væri að byrja á þessum vegi strax í haust, og mundi koma að gagni fyrir ríkissjóðinn. Er of seint að leggja niðurstöður þessarar rannsóknar fyrir næsta þing, því að af því mundi leiða, að ekki væri byrjað á þessu verki fyrr en næsta sumar, hvort heldur sem að því verður þá horfið að leggja nýjan veg eða gera við gamla veginn. Ég vildi því mega vænta þess, að hv. flm. gæti fallizt á að fella niður úr till. sinni niðurlagsorðin: „og leggja fyrir næsta þing“. Því ef þau stæðu í till., mundu þau þýða það, að stj. treysti sér ekki að hefjast handa um þessa vegarlagningu fyrr en Alþ. hefði gefið sitt samþykki til. Ég fæ ekki betur séð en að vegamálastjóra ætti að vera innan handar að hafa lokið þessari rannsókn það snemma, að hægt væri að byrja á verkinu með haustinu, enda má jafnvel ráða það af erindi hans. Hefir mér og skilizt það vaka fyrir hv. flm., að byrjað skyldi sem fyrst á þessu verki. Og það er vafalítið, að þetta er eitthvert það heppilegasta verk, sem hægt væri að vinna nú í atvinnuleysinu. Væri því æskilegt, að till. væri svo rúm, að stj. gæti ekki talið sig bundna til að bíða með framkvæmdir eftir næsta þingi. Þó að vinna þurfi að þessum vegi að vetrarlagi og vinnan verði því dýrari vegna minni afkasta en ella mundi, býst ég við, að ríkissjóður hafi lagt í eitthvað, sem minni afrakstur er af en lagningu slíks vegar, enda verður eitthvað til að finna, til þess að veita mönnum atvinnu á þessum atvinnuleysistímum. Þykir mér rétt í þessu sambandi að láta það í ljós, að mér finnst þeir, sem stjórn vegamálanna hafa með höndum, hafa gert allt of lítið af tilraunum í þá átt, hvernig bezt sé að haga vegalagningum yfirleitt. Hvort heldur skuli hafa vegina af þessari gerð eða einhverri annari. Hvort steypa skuli suma vegarkafla, en malbika aðra, o. s. frv., til þess að komast að raun um, hvað endingarbezt sé. Veit ég ekki til, að neitt hafi verið gert í þessa átt, nema ef telja skyldi hina þunnu húð, sem lögð var yfir veginn á Hellisheiði, en sá kafli virðist nú vera verri en aðrir kaflar á Suðurlandsbraut. Virðist mér sem sjálfsagt sé að gera einhverjar slíkar tilraunir, svo að reynsla fengist um það, úr hvaða efni væri bezt að gera vegina, því að það borgar sig bezt, sem lengst endist. Þetta mikla vegaviðhald kostar mikið fé, eins og sést á þeim háu fjárhæðum, sem í fjárl. eru ætlaðar til viðhalds á vegum, og alltaf fara þó fram úr áætlun þingsins.