20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (1303)

324. mál, Hafnarfjarðarvegur

Jón Baldvinsson:

Mér skilst, að komið sé nýtt atriði inn í þetta mál, sem gerir það enn flóknara en áður, en það er, að tekin yrði upp slík sporbraut eða járnbraut sem hv. 5. landsk. drap á. En mér lízt nú hinsvegar ekki á þá hugmynd, sökum þess að í útlöndum hefir það sýnt sig, að það eru einmitt mestu erfiðleikarnir með járnbrautirnar á stuttu svæðunum, og þar borga þær sig verst. Bílarnir ráða þar einir öllum flutningi, enda er það ólíkt þægilegra fyrir fólkið, að með þeim farartækjum kemst hver heim að sínum bæjardyrum, í stað þess að verða að fara út úr á járnbrautarstöðinni. Einnig virðist mér það athugandi, ef slík járnbraut ætti að komast á, að bæði í Reykjavík og í Hafnarfirði yrði að reisa stöðvar, þar sem fólkið væri tekið á, en þær stöðvar eru dýrar, og það svo, að óvíst væri, hvort slíkt borgaði sig miðað við sæmilegan veg. Þess vegna álít ég bezt að vísa þessari till. til 2. umr. nefndarlaust, því að þörfin á úrlausn þessa máls er öllum augljós, enda ber umsögn vegamálastjóra það með sér, að hann ýtir frekar undir málið. Ég vil því láta fara fram rannsókn á málinu tafarlaust, þannig að það liggi fullundirbúið fyrir sem allra fyrst og hægt verði að hefjast handa í vetur eða haust, og slíkt hið sama virðist mér vaka fyrir hv. þm. Hafnf.