21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

55. mál, byggingar- og landnámssjóður

Pétur Magnússon):

Þetta frv. er borið fram í Nd. af hv. þm. Mýr., en hefir legið fyrir landbn., sem leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd. Það hefir komið fram, þegar farið var að framkvæma l. um byggingar- og landnámssjóð frá 1928, að það eru nokkrir annmarkar á framkvæmd þeirra. Ég skal svo gera nokkra grein fyrir, í hverju þær breyt. eru fólgnar, sem þetta frv. vill gera á l. um byggingar- og landnámssjóð, og byrja þá á 1. gr. frv., sem fer fram á breyt. á c-lið 3. gr. l.

Í l. stendur, að lánbeiðandi þurfi að sanna, að hann eigi svo mikil efni, sem nauðsynleg eru til búskaparrekstrar á jörðunni, en geti ekki af eigin rammleik reist þær byggingar, er nauðsynlegar eru fyrir ábúð á henni. Og þetta á hann að sanna með vottorði tveggja skilríkra manna. Þessi vottorð hafa ekki reynzt sem ábyggilegust og leitt til þess, að ýmsir, sem ástæður hefðu haft til þess að byggja án opinbers styrks, hafa fengið lán. Nú er í þessu frv., sem fyrir liggur, fastar kveðið á um þetta og lagt til, að greinin hljóði svo: „að hann sanni með skýrslu um eignir sínar og skuldir, staðfestri af skattanefnd, að hann eigi svo mikil efni“, o. s. frv. Við álítum, að slík skýrsla yrði ábyggilegri en vottorðin.

2. brtt. er við 4. gr. l. Í l. er svo fyrir mælt, að lán til þess að endurreisa íbúðarhús á sveitabýlum og til að reisa bæjarhús á nýbýlum, sem hafa ræktað land að einhverju leyti, skuli sitja fyrir lánum til þess að reisa nýbýli á óræktuðu landi. Þetta er sennilega miðað við þær fjárveitingar, sem upphaflega var gert ráð fyrir, að yrðu veittar úr þessum sjóði. Breyt. er í því fólgin, að aftan við fyrri málsgr. 4. gr. 1. bætist: „Þó skal sjóðsstjórninni heimilt að veita lán til þess að reisa allt að 5 slík nýbýli á ári hverju“. Með þessu er það tryggt, að þó eftirspurn að lánum til endurbygginga verði mikil, er þó a. m. k. alllaf heimilt að veita lán til 5 nýbýla á hverju ári. Nú er sú breyt. á orðin, að augsýnilega verður lánað miklu minna árlega en gert var ráð fyrir upphaflega. Það er ósennilegt, að næstu árin verði veitt annað úr þessum sjóði en þær 200 þús. kr., sem ríkið leggur fram árlega. Það virðist því þörf á ákvæði sem þessu.

Þá er næsta breyt., við 5. gr. l. Sú grein kveður á um það, hvernig lánin ávaxtast og endurborgast. Áður er búið að taka fram, að lán til endurhýsingar skuli ávaxtast og endurborgast með jöfnum greiðslum, þannig að árlegt gjald sé 5% af allri lánsupphæðinni í 42 ár.

Í 5. gr. koma ákvæðin viðvíkjandi lánum til bygginga á ræktuðu landi. Þar er árlegt gjald 3½% af lánsupphæðinni í 50 ár, og loks lán til nýbýla. Þau eru vaxta- og afborganalaus fyrstu 5 árin, en borgast svo með jöfnum afborgunum á 50 árum, vaxtalaust. Breyt. er á þá leið, að miðflokkurinn falli burt og enginn greinarmunur verði gerður á lánum til endurhýsingar og bygginga á ræktuðu landi, enda virðist það ástæðulaust. Þessi lánskjör koma helzt þar til greina, sem jörð er skipt í tvennt, en þá er það oft svo, að sá, sem húsin hefir, er engu betur settur en sá, sem þarf að byggja. Aftur á móti er gert ráð fyrir, að lægsti flokkurinn, lán til nýbýla, sem eiga að borgast með 2% í 50 ár, færist upp í miðflokkinn, og verði veitt með þeim skilyrðum, að þau séu greidd með 3½% á 50 árum, ef nýbýli er reist á óræktuðu landi, eða á landi, sem ræktað hefir verið að nokkru leyti af lántakanda sjálfum síðustu 5 árin, þó þannig, að lánin séu vaxta- og afborganalaus fyrstu 5 árin. Fyrir þessari breyt. liggja aðallega tvær ástæður. Fyrst og fremst er það óeðlilegt að veita lán til svona langs tíma vaxtalaust; nýbýlastofnun er ekki svo óarðvænlegt fyrirtæki, að lán til þess þurfi að vera vaxtalaust í 50 ár. Nægjanlegt virðist, eins og hér er lagt til, að lánin séu vaxtalaus fyrstu 5 árin, meðan ætla má, að landið gefi lítið af sér. Önnur ástæðan er sú, að það hefir komið í ljós, að menn hafa gert tilraunir í þá átt að láta líta svo út, sem þeir væru að stofna nýbýli á óræktuðu landi, þó tilætlunin hafi verið sú, að síðar væri heil jörð lögð undir þau, og þannig greinilega viljað fara í kringum lögin, til þess að lánið heyrði undir vaxtalausa flokkinn. — Þá er nú sett inn í 4. gr. hámarksákvæði um fjárveitingar til endurbyggingar. en það vantar í l. eins og þau eru nú. — Um þetta atriði er ekki ástæða til að fara mörgum orðum; það hefir komið í ljós, síðan farið var að framkvæma l. um byggingar- og landnámssjóð, að lánsupphæðir hafa farið langt fram úr áætlun. Ég hefi það nú ekki hér, hvað meðallánsupphæð hefir orðið, en mér er óhætt að segja, að það hefir verið um 10–12 þús. kr. Það er auðskilið, að fyrir flesta lántakendur er þetta miklu hærri upphæð en svo, að þeir geti risið undir henni, þó að vaxtakjörin séu góð.

Ástæðan er oft sú, að allt of stórt er byggt. Lántakandi strekkist við að byggja sem stærst og fullkomnast hús, þegar hann kemst að svona góðum lánskjörum; hann hugsar sér að nota þau í sem allra ríkustum mæli. Þó eftirlit sé að vísu með því, hve stórt er byggt, og á hvern hátt, kemur það þráfaldlega fyrir, að húsin verða of stór og þar af leiðandi of kostnaðarsöm. Nú er lagt til, að ekki sé heimilt að veita sama manninum meira en 10 þús. kr. Ef menn hafa sjálfir ástæður til þess að byggja dýrari hús, er mönnum það auðvitað heimilt, en nóg reynsla er fyrir því, að fyrir þessa upphæð má byggja mjög gott íbúðarhús í sveit. Auðvitað játa ég það, að kostnaðurinn er misjafn, eftir því hvar er á landinu og hve há vinnulaun eru. Nú er mönnum ætlað að leggja fram smíðalaun að 1/3, allan flutningskostnað og heimavinnu, gröft og þess háttar. En víðast hvar mun það reynast svo, að hægt er að byggja ágætt íbúðarhús fyrir 10 þús. kr.

Þá er næst breyt. við 9. gr. 1., þar sem hömlur eru lagðar á sölu og leigu þeirra jarða, er byggt hefir verið á fyrir lán úr byggingar- og landnámssjóði. Ég ætla að lesa upp hluta af 9. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Söluverð slíkrar fasteignar má ekki vera hærra en síðasta fasteignamat sýnir, að viðbættu virðingarverði þeirra mannvirkja, er unnin hafa verið frá því er fasteignamat fór síðast fram. Sé um leiguábúð að ræða, má eftirgjald ekki vera hærra en sem svarar 4% landverðs, að viðbættum 2% húsaverðs, miðað við síðasta fasteignamat og virðingarverð umbóta, er síðar hafa verið gerðar“. Nú fer breyt. fram á, að í stað „4% landverðs að viðbættum 2% húsaverðs“ komi 5% landverðs að viðbættum 4% húsaverðs. —- Eins og nú er, kemur oft fyrir, að eftirgjald af jörðunni er ekki nóg til þess að standa straum af láni, sem veitt er til bygginga á henni, og eru þá mikil vandkvæði á því að veita lánið. Þetta ákvæði í 1. gerir m. a. í mörgum tilfellum ókleift að veita lán gegn afgjaldskvöð, af því að eftirgjaldið allt hrekkur eigi fyrir árgjaldi af láninu. Ef t. d. hafa verið veittar 10 þús. kr. til bygginga á jörð, sem metin er 300 kr., þá er eftirgjald jarðarinnar 120 kr. og húsanna 200 kr. Það verður samanlagt 320 kr. En árgjaldið til byggingar- og landnámssjóðs er 500 kr., svo að þarna vantar 180 kr. á ári svo að nægi til afborgana á láninu. — Þetta ákvæði er því alveg ófært, og sjálfsagt að breyta því.

6. breyt. gæti einna helzt orkað tvímælis. Þar er svo fyrir mælt, að stj. sjóðsins sé heimilt að lána til nauðsynlegra bygginga á 4 fyrirmyndarbúum, einu í hverjum fjórðungi, með sömu lánskjörum sem til nýbýla, gegn afgjaldskvöð, að því tilskildu, að stjórn Búnaðarfél. Ísl. mæli með stofnun þeirra og hafi sjálft yfirumsjón með rekstri þeirra. Til hvers bús má ekki lána yfir 20 þús. kr. — Um þetta gætu verið skiptar skoðanir. Ég held, að nú fyrst um sinn séu litlar líkur til þess, að út í þessi fyrirtæki verði farið, en mér finnst áhættulítið að láta þetta ákvæði standa í l., þar sem slík lán eru ekki einungis undir eftirliti sjóðsstj., heldur líka Búnaðarfél. Ísl., sem svo hefir yfirumsjón með rekstri búanna. Þessi heimild er því bara á pappírnum fyrst um sinn, en þess hefir verið óskað, að hún væri sett í lögin.

7. breyt. er á þá leið, að fyrri málsgr. 18. gr. l. falli niður. Hún er um stjórn sjóðsins, og er miðuð við það, að upphaflega hafði stjórn Ræktunarsjóðsins hana á hendi. Þar sem sjóðurinn nú er komin undir þriggja manna stjórn í Búnaðarbankanum, virðist eigi ástæða til að halda í þetta fyrirkomulag um þriggja manna ráðgjafarnefnd.

Ég ætla þá ekki að orðlengja frekar um þessar breyt. 1.–5. breyt. finnst mér mæla svo vel með sér sjálfar, að sjálfsagt sé að samþ. þær, en um þá 6. gæti helzt orkað tvímælis.